Jöfnun búsetuskilyrða á landinu

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:45:04 (5914)

2004-03-31 15:45:04# 130. lþ. 92.9 fundur 773. mál: #A jöfnun búsetuskilyrða á landinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Nú er hálfnaður gildistími stefnumótandi áætlunar í byggðamálum fyrir árin 2002--2005. Það er vissulega rétt hjá hv. þm. og fyrirspyrjanda Kristjáni L. Möller, að í byggðaáætluninni eru boðaðar aðgerðir til þess að jafna búsetuskilyrði í landinu. Raunar má segja að byggðaáætlun öll sé um það markmið að draga úr mismunun á lífskjörum og afkomumöguleikum fólks milli byggðarlaga og skapa íbúum á landsbyggðinni sem hagstæðust búsetuskilyrði.

Farin var sú leið að skilgreina 22 beinar aðgerðir til að ná fram meginmarkmiðum byggðaáætlunarinnar. Í henni er skýrt tekið fram hver ber ábyrgð á framkvæmd hverrar þeirra 22 aðgerða sem þar eru tilgreindar, en það eru ýmist einstök ráðuneyti eða Byggðastofnun.

Það er rétt að taka skýrt fram að þessar aðgerðir eru auðvitað ekki tæmandi og staðið hefur verið fyrir fjölda annarra aðgerða í því skyni að jafna búsetuskilyrði í landinu á gildistíma núgildandi byggðaáætlunar. Í skýrslu sem iðnrn. tók nýverið saman um framvindu byggðaáætlunarinnar er m.a. gerð grein fyrir því hvaða aðgerðum stjórnvöld hafa staðið fyrir í því skyni að ná markmiðum sínum. Þessari skýrslu hefur verið dreift á Alþingi og ég leyfi mér að vísa til hennar þar sem hér gefst hvorki tími né rúm til að rekja stöðu allra þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í. Ég vona að hv. þm. hafi tekið eftir því að þessari skýrslu hefur verið dreift.

Þó er skemmst frá því að segja að flestum þeirra aðgerða sem eru sérstaklega skilgreindar í byggðaáætluninni miðar vel og framkvæmd hluta þeirra er að fullu lokið. Ég get nefnt sem dæmi að Impra, nýsköpunarmiðstöð, tók til starfa á Akureyri í lok árs 2002, en miðstöðinni er ætlað það mikilvæga hlutverk að efla nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni, hafa frumkvæði að þróun viðskiptahugmynda og auka þannig fjölbreytni atvinnulífsins og efla atvinnutækifæri á landsbyggðinni allri. Reynsla af starfi nýsköpunarmiðstöðvarinnar lofar góðu um framhaldið.

Þá er rétt að segja frá því að annars vegar Ölfus, Hveragerðisbær og Árborg og hins vegar Aðaldælahreppur, Húsavík, Þingeyjarsveit, sem unnu samkeppni Byggðastofnunar um rafrænt samfélag, hafa nú undirritað samstarfssamninga við stofnunina um framkvæmd tilraunaverkefnis um rafrænt samfélag. Þetta er verkefni sem hefur það m.a. að markmiði að auka nýsköpun í atvinnulífi á landsbyggðinni, bæta afkomu íbúanna og efla menntun og menningarstarfsemi.

Mig langar að geta þess að ráðuneytið hefur gert samninga við ýmsa aðila um framkvæmd þeirra aðgerða sem skilgreindar eru í byggðaáætlun. Þannig hafa t.d. menntamála- og iðnaðarráðuneytið gert með sér samkomulag um átak í uppbyggingu menntunar og menningar á landsbyggðinni, samgöngu- og iðnaðarráðherra um sameiginleg verkefni í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu á landsbyggðinni og þannig mætti áfram telja.

Að lokum langar mig að nefna að nýlega kom út skýrslan Líftækninet í auðlindanýtingu. Hún er unnin á grunni byggðaáætlunar og samkvæmt samkomulagi iðnaðar-, menntamála- og sjávarútvegsráðherra um að láta kanna möguleika á uppbyggingu öndvegisseturs í auðlindalíftækni á Akureyri.

Hvað varðar aðrar aðgerðir til jöfnunar búsetuskilyrða en þær sem beinlínis eru tilgreinar í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar er ljóst að stjórnvöld hafa unnið að því á ýmsum sviðum að efla og bæta starfsskilyrði atvinnulífsins og búsetuskilyrði á landsbyggðinni. Ýmsar þeirra aðgerða eru taldar upp í skýrslunni um framvindu byggðaáætlunar sem ég vísaði til áðan. Af þeim aðgerðum sem iðnrn. hefur komið að vil ég einkum nefna sérstaka fjárveitingu til atvinnuþróunarverkefna á landsbyggðinni. Auk þess er unnið, eins og hér hefur komið fram áður í fyrirspurn, að byggðaáætlun með Vestfirðingum og nýlega er lokið ákveðnu verki sem tengist Eyjafjarðarsvæðinu og er það sérstök byggðaáætlun fyrir það svæði.

Ýmislegt má nú nefna. En ég hafði vænst þess að skýrslan sem hefur verið lögð fram um framkvæmd byggðaáætlunar gæti komið til umfjöllunar á hv. Alþingi áður en því lýkur í vor og þá er hægt að fara miklu dýpra í málin. Ég er svo sannarlega ekki feimin við að tala við hv. fyrirspyrjanda né aðra hv. þingmenn um framkvæmd byggðaáætlunar vegna þess að ég tel að hún sé nú þegar farin að skila árangri.