Jöfnun búsetuskilyrða á landinu

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 15:55:56 (5920)

2004-03-31 15:55:56# 130. lþ. 92.9 fundur 773. mál: #A jöfnun búsetuskilyrða á landinu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Hæstv. ráðherra kvartaði yfir því áðan að það væri verið að skamma hana fyrir það sem hún hefði ekki yfir að segja. Hún sagði að menn ættu að reyna að einbeita sér að því að skamma hana fyrir það sem hún hefði yfir að segja og það ætla ég að gera.

Hæstv. ráðherra er yfirmaður Rariks, hefur yfir Rarik að segja. Víða um sveitir landsins, sérstaklega á Suðurlandi þar sem ég þekki aðeins til, vantar þriggja fasa rafmagn. Þriggja fasa rafmagn er grundvöllur þess að bændur geti á mörgum svæðum tekið upp nýjustu tækni í hefðbundnum búskap og ég tala ekki um grundvöllur þess að þeir geti farið út í nýjar atvinnugreinar eða lagað til fyrir sér og sínum á sínum jörðum. Þarna hefur hæstv. ráðherra tækifærið. Hún hefur yfir Rarik að segja og ég skora á hana að skoða aðstæður hinna dreifðu byggða sem ekki hafa möguleika á því að komast í þriggja fasa rafmagn. Hún hlýtur að vera fljót að kippa því í liðinn.