Íslenski þorskstofninn

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:06:52 (5925)

2004-03-31 18:06:52# 130. lþ. 92.10 fundur 630. mál: #A íslenski þorskstofninn# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ágætt að menn tjái sig um málin og spyrji spurninga. Þær spurningar sem hv. þm. bar upp í ræðustólnum eru svolítið öðruvísi en spurningarnar á þingskjalinu sem ég fékk til að svara á þeim tíma sem ég hef til ráðstöfunar.

Þær spurningar eru svohljóðandi:

,,1. Hverjar telur ráðherra ástæður þess að árlegur þorskafli hefur aðeins verið 210 þúsund tonn að jafnaði sl. áratug?

2. Hefur ráðherra einhver áform um að auka hlutdeild svokallaðra ,,vistvænna`` veiða í heildarafla íslenska fiskiskipaflotans?``

Til að svara fyrstu spurningunni tel ég að samdráttur í veiðum verði fyrst og fremst skýrður með ofveiði til lengri tíma auk þess sem nýliðun var mjög léleg á árunum 1985--1996. Frá 1997--2002 hafa umskipti orðið til hins betra í nýliðun að undanskildum árgangi 2001, sem var mjög lítill. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að stjórn veiða úr þorskstofninum hefur verið markvissari undanfarin tíu ár en hún var þar áður. Þær takmarkanir sem verið hafa á þorskveiðum hafa eðlilega leitt til þess að veiðin hefur verið minni en ella. Hins vegar er ljóst að þær takmarkanir munu skila sér þegar litið er til veiða á næstu árum. Hrygningarstofninn hefur braggast nokkuð frá því sem hann var en slíkt var talið nauðsynlegt og miðuðu friðunaraðgerðir m.a. að því.

Ég held að þróunin komi best fram í tölunum.

Á árunum 1962--1972 var meðalþorskaflinn 405 þús. tonn, meðalveiðistofninn 1.080 þús. tonn og meðalhrygningarstofninn 505 þús. tonn.

Á árunum 1973--1982 var meðalþorskaflinn 380 þús. tonn, meðalveiðistofninn 971 þús. tonn og meðalhrygningarstofninn 384 þús. tonn.

Á árunum 1983--1992 var meðalþorskaflinn 332 þús. tonn, meðalveiðistofninn 742 þús. tonn og meðalhrygningarstofninn 249 þús. tonn.

Á árunum 1995--2002 var meðalþorskaflinn 216 þús. tonn, meðalveiðistofninn 569 þús. tonn og meðalhrygningarstofninn 296 þús. tonn.

Ég held að á þessum tölum sjáist það samhengi sem ég var að nefna, um ofveiði til lengri tíma sem skýringu á þessu ástandi.

Hvað varðar síðari spurninguna eru ekki, alla vega enn sem komið er, uppi áform um að hafa áhrif á það með beinum afskiptum í hvaða veiðarfæri afli er veiddur. Hins vegar er ávallt reynt að fylgjast með veiðum og koma í veg fyrir skaðlegar veiðar, t.d. með svæðalokun. Í þessu sambandi má nefna að á vegum ráðuneytisins hefur starfað nefnd sem fjallað hefur um líffræðilega fiskveiðistjórn og kemur til með að skila áfangaáliti fljótlega. Hvort hún hefur tillögur í þá átt sem hér er spurt um er ekki enn vitað. Þó er líklegt að áfangaálitið leiði til frekara starfs hjá nefndinni og að svo viðamiklar breytingar, ef til kæmu, þ.e. að reyna að hafa áhrif á það hvaða veiðarfæri aflinn er veiddur í, muni taka lengri tíma --- komi til þess að það verði lagt til.