Íslenski þorskstofninn

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:17:45 (5931)

2004-03-31 18:17:45# 130. lþ. 92.10 fundur 630. mál: #A íslenski þorskstofninn# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:17]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Það hefur margt athyglisvert komið fram í umræðunni. En ég held að menn einblíni einum of mikið á kerfið þegar menn tala á þessum nótum og þeir gleymi því að á u.þ.b. fyrstu tíu árunum sem kvótakerfið var í notkun var alltaf ákveðinn kvóti umfram það magn sem fiskifræðingarnir lögðu til. Og síðan var alltaf veitt enn þá meira umfram það sem ákveðið var að kvótinn ætti að vera. (Gripið fram í: Hvernig er það búið að vera í Færeyjum?) Þannig að þær ákvarðanir sem við erum að taka í dag og byggjum á ráðleggingum vísindamanna, eftir að þeir eru út af fyrir sig búnir að ganga í gegnum sína reynslusögu í því að reyna að ákvarða stærð stofnsins, gera það vonandi ekki að verkum að þær leiði til ofveiði eins og var mestallt tímabilið sem ég nefndi á undan.

Hugmyndir um það að við höfum verið að veiða ofan af stofninum, veiða stærsta fiskinn og þann fisk sem vex hraðast og það leiði síðan til þess að við höfum áhrif á erfðamengi stofnsins og hann verði minni, eru mjög athyglisverðar kenningar. En enn sem komið er eru þær einungis kenningar og verið er að grafast fyrir um hvort hægt sé að staðfesta þær og hvort hægt sé að leggja þær til grundvallar í framtíðarákvörðunum okkar.

Jafnframt eru kenningar um að við höfum verið að veiða of mikið af uppsjávarfiskinum sem sé grundvöllur fæðu fyrir bolfiskinn. Það eru líka enn sem komið er einungis kenningar. Þar á sér líka stað vinna í því að grafast fyrir um hvort sú kenning á einhverjar rætur sem við þurfum síðan að leggja til grundvallar í ákvarðanatökunni.

Frú forseti. Margt af því sem hér hefur komið fram er verið að athuga og vonandi munu niðurstöðurnar gefa okkur betri grundvöll til ákvörðunartöku.