Eldisþorskur

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:23:24 (5933)

2004-03-31 18:23:24# 130. lþ. 92.11 fundur 675. mál: #A eldisþorskur# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Þetta eru athyglisverðar vangaveltur sem fram koma hjá hv. þm. og lýsingin á þorskinum sem er að reyna að troða sé út um gatið á netinu í kvínni minnir óneitanlega á rollurnar sem reyna að troða sér í gegnum gatið á girðingunni til þess að komast inn fyrir í túnið. Það er því víða líkt atferlið í náttúrunni.

Hvað varðar fyrirspurn hv. þm. þá er fyrsta spurningin um hver hafi eftirlit með því hvort eldisfiskur sleppi í einhverjum mæli úr kvíum. Slíkt eftirlit er eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst á vegum eldisfyrirtækjanna sjálfra, enda er það þeirra hagur að sem minnst sleppi úr kvíunum. Hvað opinbert eftirlit varðar er það á hendi Fiskistofu, sbr. lög nr. 32/2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, og reglugerð við þau lög nr. 238/2003, með síðari breytingum.

Önnur spurningin er: ,,Hefur verið metið hvort og þá hvaða hættur geti stafað af því ef kynbættur eldisþorskur sleppur í miklum mæli úr kví og blandast staðbundnum þorskstofnum?``

Ekkert slíkt fræðilegt mat hefur enn sem komið er farið fram en hins vegar er ljóst að erfðafjölbreytni íslenska þorskstofnsins er mikil miðað við aðra stofna sömu tegundar. Mikil þörf er á að koma upp kynbættum íslenskum eldisstofni þorsks og er það raunar ein helsta forsenda þess að þorskeldi hér við land nái að dafna. Að þessu verkefni er unnið bæði af vísinda- og fiskeldismönnum á vegum bæði opinberra stofnana og fiskeldisfyrirtækja og er styrkt m.a. af AVS-verkefnissjóðnum. Kapp verður lagt á að kynbættur fiskur sleppi ekki úr kvíum. Í því sambandi ber þó að hafa í huga að þó að fiskur sleppi stöku sinnum í litlum mæli getur slíkt vart valdið teljandi tjóni. Erfðablöndun í einhverjum mæli á sér ekki stað nema um nokkuð stöðugt ferli verði að ræða og fyrirtækin sjálf munu ekki láta slíkt gerast einfaldlega vegna hagkvæmnissjónarmiða, auk virks eftirlits Fiskistofu, samanber svar við fyrstu spurningunni.

Þriðja spurningin er: ,,Hefur ráðherra í hyggju að setja reglur um leyfilegar kynbætur á eldisþorski?``

Það mál hefur þegar verið lagt fram á Alþingi og samþykkt lög hvað það varðar, lög nr. 3/2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum. Þar segir m.a. í 4. mgr. 3. gr. laganna eins og þau eru í dag: ,,þar á meðal um takmörkun eða bann eldis á nytjastofnum er lög þessi ná til ef ljóst þykir að aðrar verndar- og friðunaraðgerðir sem kveðið er á um í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum duga ekki til að koma í veg fyrir erfðablöndun við staðbundna stofna eða að líffræðilegri fjölbreytni sé ógnað og tegundum eða stofnum stefnt í hættu.``

Það hefur því verið lagður lagalegur grundvöllur að þessari vinnu og henni mun vinda fram í samræmi við þá þróun sem á sér stað í þorskeldinu. Ef okkur tekst vel upp ætti okkur að geta tekist að ala hér þorsk þannig að þjóðarbúið bæti hag sinn á því en án þess þó að það komi niður á villtum stofnum ef einhver brögð verða að því að þorskur sleppi úr kvíum.