Nauðungarvistun

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:43:48 (5941)

2004-03-31 18:43:48# 130. lþ. 92.13 fundur 699. mál: #A nauðungarvistun# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:43]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í lögræðislögum, nr. 71/1997, eru ákvæði um nauðungarvistun einstaklings. Með því er átt við að sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar eða þegar einstaklingi sem dvalið hefur á sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja er haldið þar nauðugum. Ástæður nauðungarvistunar geta vissulega verið mismunandi en þó er algengast að það sé vegna alvarlegra geðsjúkdóma og/eða mikillar neyslu fíkniefna. Aðstæður þeirra sem eiga við geðveiki að stríða geta verið þannig að hinn veiki geri sér enga grein fyrir sjúkdómnum þó læknar og ættingjar telji viðkomandi svo veikan að nauðsynlegt sé að leggja hann á sjúkrahús. Í þeim tilvikum er möguleiki á að leggja sjúklinginn inn án þess að samþykki hans sé til staðar.

Nauðungarvistun þarf þó ekki að fela í sér að lögráða einstaklingur sé sviptur sjálfræði eins og var áður en lögræðislögum var breytt 1997. Hægt er að nauðungarvista einstakling í allt að þrjár vikur í senn án þess að viðkomandi sé sviptur sjálfræði. Ákvörðun um nauðungarvistun er ávallt í samráði við lækni en ættingjar hins veika verða að leggja fram beiðnina um nauðungarvistun til dómsmrn. sem tekur málið þegar til meðferðar því nauðungarvistun má ekki vara lengur en 48 klukkustundir nema úrskurður dómsmrn. liggi fyrir. Það eru augljóslega þung spor ættingja einstaklings sem talinn er mjög geðveikur að óska eftir nauðungarvistun. Slík ákvörðun ætti aðeins að byggjast á faglegu mati og umsókn í höndum fagaðila eða viðkomandi félagsmálayfirvalda. Beiðni ættingja um nauðungarvistun hefur brotið upp fjölskyldur, valdið hjónaskilnuðum og ómældri sorg og erfiðleikum innan fjölskyldna. Rúmlega 3% þeirra sem leggjast inn á geðdeildir eru nauðungarvistaðir. Á síðustu átta árum hafa 578 einstaklingar verið nauðungarvistaðir, en síðustu þrjú árin skiptist það þannig að 2001 var 61 nauðungarvistaður, 2002 86 nauðungarvistaðir og 2003 92 nauðungarvistaðir. Fjöldinn hefur því farið vaxandi. Þó má reikna með að þörfin sé í raun meiri, en ætla má að það skilyrði að ættingjar undirriti komi í veg fyrir að þessu úrræði sé beitt þó þörfin sé fyrir hendi.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur ráðherra í hyggju að breyta reglum varðandi nauðungarvistun geðsjúkra? Ef svo er, á hvern hátt og hvenær má vænta þeirra breytinga?