Meðferðardeild við fangelsi landsins

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 18:58:59 (5947)

2004-03-31 18:58:59# 130. lþ. 92.14 fundur 739. mál: #A meðferðardeild við fangelsi landsins# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[18:58]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég skil orð hans svo og einnig það að dregið var til baka frv. um fangelsi og fangavist eða refsivist sem hér var lagt á borð þingmanna, að hæstv. ráðherra vilji fara í heildarendurskoðun á því hvaða úrræði eru best þegar refsing fyrir afbrot er annars vegar. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að stemma þyrfti stigu við smygli á fíkniefnum inn í fangelsin. Ég tek undir það að skýrar leiðir þurfa vera til þess að möguleiki sé á því að stemma stigu við smygli á fíkniefnum í fangelsin. En ef til væri meðferðarúrræði innan fangelsis við upphaf afplánunar, þ.e. meðferðardeild þar sem boðið væri upp á langtímameðferð, þá væri þörf fanga fyrir fíkniefni minni. Við megum ekki gleyma því að oft er um að ræða alveg hundveikt fólk sem fær ekki meðferð við sínum sjúkdómi. Fíknin ræður för í öllu tilliti. Ef viðkomandi fær ekki fíkniefnin þá eru fráhvarfseinkennin alveg rosaleg. Því hlýtur að vera allra hagur að rekin verði öflug meðferðardeild innan veggja fangelsa. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hann vilji alla vega skoða leiðir til þess að bæta úr þeirri starfsemi sem við höfum í dag.

Virðulegi forseti. Ég vil svo nota tækifærið og fagna því að umræða um fangelsismál er meira á döfinni í þjóðfélaginu núna en nokkru sinni áður. Vonandi verður það til þess að markmið og leiðir að markmiðunum, hvað refsivist þýðir, verði skýrari en verið hefur.