Löggæslumál í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti

Miðvikudaginn 31. mars 2004, kl. 19:03:01 (5949)

2004-03-31 19:03:01# 130. lþ. 92.15 fundur 806. mál: #A löggæslumál í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 92. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi leggur fyrir mig tvær spurningar:

,,1. Telur ráðherra að löggæslan, eins og hún er nú, sé næg til að tryggja öryggi íbúa í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti?

2. Telur ráðherra að eftirlit lögreglunnar að næturlagi sé nægt til að tryggja öryggi íbúa í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti?``

Við spurningum hv. fyrirspyrjanda eru einföld svör. Ég tel að löggæslan eins og hún er nú í Reykjavík og öðrum bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sé góð, bæði að degi sem nóttu, og að sjálfsögðu á þetta við um Mosfellsbæ og hverfin Grafarvog og Grafarholt í Reykjavík. Til glöggvunar fyrir hv. fyrirspyrjanda má geta þess að eftirliti í Mosfellsbæ er þannig háttað að þar eru tveir lögreglumenn á merktri lögreglubifreið á vakt allan sólarhringinn. Í Grafarvogi er gerður út bíll með tveimur mönnum stóran hluta sólarhringsins auk þess sem bætt er við bíl við eftirlit eftir þörfum á tilgreindum tímum. Í Grafarholti sinnir lögreglubifreið almennu eftirliti sem fer um Breiðholt, Árbæ og Grafarholt auk þess sem bíllinn í Grafarvogi sinnir útköllum þar.

Þessu eftirliti til viðbótar eru gerðir út ómerktir lögreglubílar allar nætur og fara þeir um öll hverfi borgarinnar og önnur sveitarfélög sem heyra undir lögregluna í Reykjavík. Lögreglan í Reykjavík hefur nýverið sett sér metnaðarfull markmið á ýmsum sviðum þar á meðal varðandi innbrot, að þeim skuli fækkað bæði í hús og bíla. Ómerktar eftirlitsbifreiðar gegna þar lykilhlutverki.

Þessu til viðbótar er rétt að geta þess að umferðardeild lögreglunnar gerir út lögreglubíla stóran hluta sólarhringsins og sinna þeir bílar umferðareftirliti og umferðaróhöppum um alla borgina og að þessu koma einnig lögreglumenn á bifhjólum. Upptalningunni er ekki lokið því að til viðbótar þessu eftirliti lögreglunnar í hverfum borgarinnar eru hverfalögreglumenn við störf á öllum þessum stöðum og í raun í öllum hverfum borgarinnar. Einn er með aðsetur í Mosfellsbæ, annar í Grafarvogsstöð og síðan eru tveir með starfsaðstöðu í Breiðholtsstöð þar sem annar sinnir Árbæjarhverfi og Grafarholti. Hefur vinna þessara lögreglumanna, sem vinna náið með íbúum, félagsmálayfirvöldum og skólum á sínum svæðum, skilað miklum og góðum árangri. Sérstaklega má í því sambandi nefna frumkvöðlastarf lögreglunnar og borgaryfirvalda í Grafarvogi með verkefnið Hringurinn og hefur það starf þegar verið útvíkkað og tekið upp í Breiðholti. Nú er að störfum nefnd sem vinnur að lokatillögum sínum um enn frekari útvíkkun verkefnisins.

Síðast en ekki síst er í þessu samhengi öllu að nefna nýlega eflingu sérsveitar lögreglunnar sem var afar brýnt skref til að tryggja enn frekari öryggi lögreglunnar og landsmanna allra. Sú skipulagsbreyting sem varð 1. mars sl. felur jafnframt í sér umtalsverða aukningu á löggæslu í höfuðborginni sem kemur ekki bara íbúum í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Grafarholti til góða heldur einnig öllum íbúum á höfuðborgarsvæðinu og landinu öllu. Ég fæ ekki betur séð en íbúar í því bæjarfélagi og tveimur hverfum sem hv. fyrirspyrjandi vísar til séu almennt ánægðir með þjónustu lögreglunnar. Nýlega var til að mynda gerð breyting á viðveru lögregluþjóna á hverfastöðinni í Grafarvogi samkvæmt óskum íbúa sem var afar vel tekið eins og fram kom nýlega í Grafarvogsblaðinu sem gefið er út af fulltrúum hverfisins.

Þegar skoðaðar eru tölur um fjölda brota í helstu brotaflokkum á þeim stöðum sem fyrirspyrjandi spyr um kemur fram að lítil breyting hefur orðið undanfarin ár að teknu tilliti til íbúafjölda. Ég get því ekki annað sagt en að lögreglan í Reykjavík sinni vel þeim þremur stöðum sem hér eru gerðir að umtalsefni vel sem og öðrum stöðum sem undir hana heyra. Ég vil minna á að um miðjan febrúar sl. var samþykkt ályktun í borgarstjórn Reykjavíkur þar sem því var sérstaklega fagnað að fjölgað yrði í lögreglunni og því þarfa starfi sem unnið er í borginni.

Einnig vil ég nefna að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, situr í sérstakri verkefnisstjórn sem ég hef skipað til þess að ræða um löggæslumálefni, breytingar og þróun þeirra. Ég vil til áréttingar vísa í Grafarvogsblaðið þar sem segir að bætt þjónusta lögreglunnar sé fagnaðarefni og ætti enn að auka öryggi íbúa í Grafarvoginum. Starfsaðferðir hverfislögreglunnar í Grafarvogi, góð þekking á íbúum og aðstöðu í hverfinu hefur ásamt öðru gert það að verkum að afbrot eru fátíð í Grafarvogi og þau afbrot sem framin eru upplýsir lögreglan yfirleitt með skjótum hætti.