Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 10:37:20 (5952)

2004-04-01 10:37:20# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[10:37]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Það frv. sem hæstv. menntmrh. leggur fram er í megindráttum varðandi þrjú svið. Í fyrsta lagi er lögð til breyting á skipan dómnefnda. Í öðru lagi er lögð til undanþága varðandi auglýsingu á störfum og í þriðja lagi er bráðabirgðaákvæði sem fjallar um Norrænu eldfjallastöðina. Ég hef í hyggju að fjalla lítillega um öll þessi þrjú meginatriði frv.

Í fyrsta lagi vil ég varpa því fram hvort rétt sé að fara þá leið sem hér er lögð til varðandi dómnefndir. Nú er mér að vísu kunnugt um að menntmrn. hefur jafnan með einhverjum hætti komið að því þegar settar hafa verið upp meiri háttar dómnefndir sem varða embætti við Háskóla Íslands.

Töluverð umræða hefur verið uppi um sjálfstæði háskóla. Hún hefur m.a. birst í því að hæstv. menntmrh. hefur ekki viljað blanda sér í það sem hún hefur kallað innri mál skólans. Stundum hefur manni þótt jafnvel nóg um, t.d. varðandi lykilatriði eins og skólagjöld, en það verður hver að fljúga sem hann er fiðraður. Hér er þessi tillaga lögð fram með þeim hætti að gert er ráð fyrir því að þriggja manna dómnefnd fjalli jafnan um ráðningar. Ferlið sem lagt er til er jákvætt og líklegt til þess að flýta fyrir málum. Háskólinn á að skipa formann og háskólinn á síðan að skipa þriðja mann eftir því hvers eðlis staðan er sem verið er að sækja um. En menntmrh. sjálfur á að skipa varaformann. Ég dreg það í efa, frú forseti, að þetta sé rétt skipan og í samræmi við það sem er yfirlýst stefna þessarar ríkisstjórnar, að efla sjálfstæði háskólans. Í þessu felst það ekki að efla sjálfstæði háskólans, ef menntmrh. sjálfur ætlar áfram í reynd að vera með puttana, í óeiginlegri merkingu, í ráðningum í meiri háttar stöður við Háskóla Íslands. Ég er ekki viss um að þessi aðferð sé rétt og ég hvet þá sem um þetta véla, ekki síst hæstv. menntmrh., til að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að efla sjálfstæði háskólans enn frekar með því að ráðherra komi ekki með þessum hætti að því að byggja upp innra skipulag háskólans með því að hafa í reynd áhrif á skipan prófessora og annarra sem þarna koma að.

Meginástæða þess að ég kom þó hér upp er að ég er ekki fyllilega sáttur við þá breytingu sem lögð er til í b-lið 1. gr. Þar er lagt til að háskólinn geti mælt svo fyrir að það megi undanþiggja sérstök tímabundin störf eðlilegri starfsauglýsingu. Þetta er auðvitað réttlætanlegt í ákveðnum tilvikum. Það eru talin upp sex tilvik og á fimm þeirra get ég alveg fallist. Mér finnst fullkomlega eðlilegt, og byggi það m.a. á eigin reynslu frá því að ég var einu sinni vísindamaður og stýrði rannsóknarverkefnum, að námsmenn í framhaldsnámi séu ráðnir án auglýsingar.

Við sem einhvern tíma höfum komið að þekkingarsviðum vitum að gangvirki nýrrar þekkingarsköpunar er að verulegu leyti í höfðum þeirra manna og kvenna sem eru í framhaldsnámi, eru í meistaraprófsnámi og doktorsnámi. Þar er deigla nýrra hugmynda þessara tilvonandi rannsóknarmanna sem eiga eftir að varða allan feril þeirra út ævina og það er eðlilegt að slíkt fólk sé ráðið af kennurum sínum eða prófessorum og hugsanlega sett upp verkefni í kringum tilteknar hugmyndir hjá þeim. Sama má segja um flest af þessu.

Mér finnst hins vegar óeðlilegt þegar verið er að undanþiggja auglýsingu starf háskólakennara eða rannsóknarsérfræðings sem er byggt á rannsóknarstyrkjum. Hér er oft um að ræða mjög stóra og mikla styrki. Þróunin er sú að slíkir styrkir eru að verða alþjóðlegir og þetta eru gríðarlegar fjárhæðir. Þetta eru styrkir sem skólarnir fá í krafti, ekki bara atgervis þeirra sem um þá sækja eða eru umsóknarstjórar, heldur í krafti atgervis viðkomandi rannsóknastofnunar og háskóla. Ég tel ekki eðlilegt eins og segir í frv. að viðkomandi verkefnastjóri hafi fullt vald til að ráðstafa styrknum. Um er á stundum að ræða styrki sem hlaupa á tugum milljóna, jafnvel hundruðum milljóna. Þróunin er sú að eftir því sem við þættumst betur inn í hið alþjóðlega rannsóknarkerfi og styrkjakerfi verða þessir styrkir æ stærri. Þá finnst mér að tekið sé að sneyðast um stöðu sjálfstæðra rannsóknarmanna, ungs fólks sem er að koma úr námi og vill hasla sér völl, ef á að halda í þetta gamla kerfi þar sem prófessorar og einstakir stjórar geta pikkað út vildarmenn sína úr námi eða annars staðar að. Það er ekki jafnræði.

Sem jafnaðarmaður er ég á móti þessu. Ég get fallist á hin atriðin. Ég þarf a.m.k. miklu sterkari rök en koma þarna fram og ég er hissa á jafnágætum ráðherra og hæstv. menntmrh. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að taka svo til orða eins og hún gerir, með leyfi forseta:

,,Þessi brtt. hefur að geyma heimild sem í framkvæmd yrði beitt þröngt...`` --- Má ég spyrja, frú forseti: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að sitja lengi? Hvernig getur hún um aldur og eilífð tryggt það að sú miskunn og hlífð sem í þessu kemur fram af hennar hálfu verði jafnan við lýði? Að sjálfsögðu er ekki svo. Í öllu falli getur ráðherra aldrei lofað slíku, allra síst þegar jafnflókin verksmiðja og háskóli er annars vegar.

Ég tel að þarna hafi frumvarpshöfundur, eða sá sem ber ábyrgð á frv., verið að sýna iðrun sína yfir því sem á eftir kom vegna þess að ég held að þetta hljóti að vera komið inn í frv. fyrir tilstilli þeirra smákónga sem eðlilega ráða miklu í fabrikkum eins og Háskóla Íslands. Það er ekkert skrýtið við það að allir vilji verja hólmann sinn. Ég þekki það sjálfur að þeir sem hafa stýrt verkefnum vilja stýra þeim algerlega og ráða því algerlega hverjir eru ráðnir þar til starfa. Það er ekkert skrýtið við það en það er hlutverk okkar sem setjum lögin, hv. formaður þingflokks framsóknarmanna, að stemma slíka menn. Við eigum að setja lög þar sem allt hvílir á jafnræði og ég held að hér sé um að ræða það stóra styrki og viðamikil verkefni að við verðum að tryggja því unga fólki sem er að koma úr námi og telur sig hugsanlega hafa burði til að sinna verkefnum sem falla undir svona kost á að sækja um þau störf. Það verður þá að vera á verksviði þeirra sem ráða að velja og hafna. En það á ekki að útiloka menn fyrir fram. Með þessu lagi er í reynd verið að setja þá skör ofar sem hafa unnið með viðkomandi verkefnastjórum. Ég tala af reynslu.

[10:45]

Í þriðja lagi --- ég ætlaði að beina spurningum til hæstv. ráðherra og vona að hún hlýði á mál mitt --- er hér bráðabirgðaákvæði sem varðar Norrænu eldfjallastöðina. Mig langaði þá að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er aðdragandinn að því að Norræna eldfjallastöðin er flutt með þessum hætti inn fyrir veggi háskólans? Ég tel það ekkert óeðlilegt, ég vil taka það alveg skýrt fram, og ég er almennt þeirrar skoðunar að það eigi að sameina rannsóknastofnanir íslenska ríkisins eftir því sem hægt er. Ég tel ekkert óeðlilegt við það en ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er aðdragandinn? Svo er þess getið að það séu 18 starfsmenn hjá Norrænu eldfjallastöðinni og samkvæmt frv. er 11 boðið starf við Háskóla Íslands. Það er að vísu skilyrt því að það sé ljóst að viðkomandi starfsmenn uppfylli lágmarkshæfniskröfur. Ég er þeirrar skoðunar, frú forseti, að þegar menn eru með flutning af þessu tagi eigi að flytja með manni og mús. Það á ekki að skapa erfiðleika, jafnvel ekki tímabundna, og mér finnst að þeir sem hafa verið nógu góðir til að starfa hjá þeirri stofnun séu nógu góðir til að starfa að svipuðum verkefnum innan háskólans ef það er á annað borð verið að flytja stofnunina.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra ef hún getur svarað því núna --- ég geri ekki mikið mál úr því þó að hún geti það ekki --- en hversu margir starfsmenn uppfylla ekki lágmarkshæfniskröfur? Er það kannski ekki að gefnu tilefni sem þetta er orðað svona? Mér finnst sem framkvæmdarvaldið sé þarna að fá heimild okkar sem myndum löggjafann til að ganga kannski fram af hörku gagnvart einhverjum tilteknum starfsmönnum. Það kann að vera nauðsynlegt en ég vil fá að vita það. Er það svo?

Í síðasta lagi varðandi þetta atriði er ljóst að sjö starfsmenn eru með ráðningarsamninga sem renna út fyrir 1. júlí 2004. Ég skil textann svo að þessi tímamörk hafi verið sett til að tengjast þessari yfirfærslu. Það má með nokkuð grófari hætti túlka það þannig að menn hafi þarna verið að nota þessa yfirfærslu til þess að skera niður.

Mig langar að spyrja: Hvers eðlis eru þessir starfsmenn? Eru þetta t.d. útlendir styrkþegar sem hafa komið hingað til lands til að sinna ákveðnum rannsóknarverkefnum og er sagt upp á þennan hátt? Ég geri mér grein fyrir því að þetta er kannski fullítarleg spurning til þess að hæstv. ráðherra geti svarað núna en þetta eru atriði sem ég þarf að vita áður en ég get ljáð samþykki mitt við þessu.

Varðandi Norrænu eldfjallastöðina er meginspurning mín þessi: Hver var aðdragandinn að þessum flutningi?