Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 10:48:51 (5953)

2004-04-01 10:48:51# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Ég sé ekki annað en að hér sé á ferðinni mál sem í fyrsta lagi kemur til með að einfalda fremur þunglamalegan ráðningarferil í stöður við Háskóla Íslands. Við þekkjum það öll sem höfum komið að málefnum háskólans að þar hefur verið kvartað undan slíku hingað til þannig að ég sé ekki annað en að 1. gr. eigi að liðka þar fyrir og fagna því að það skuli gert á þennan hátt.

Ég get á hinn bóginn alveg tekið undir vangaveltur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar varðandi skipun dómnefndarmanna, varðandi dómnefndirnar sem eiga að dæma um hæfi umsækjenda um kennara- og sérfræðingsstörf, þannig að kannski er rétt að hæstv. menntmrh. varpi ljósi á það, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson óskaði eftir.

Svo mun auðvitað menntmn. óska eftir umsögnum um þetta mál og þá m.a. frá Félagi háskólakennara, BHM og öðrum hagsmunaaðilum sem að þessu máli munu koma. Ég held að við þessa 1. umr. málsins sé samt ágætt að fá örlítið frekara ljós frá hæstv. ráðherra á sjónarmið hennar varðandi það hvert markmið hennar er með því að hafa einn ráðherraskipaðan aðila í þessari dómnefnd. Auðvitað verðum við öll að standa vörð um sjálfstæði Háskóla Íslands, alveg hreint eins og hæstv. ráðherra hefur óskað eftir og lýst yfir í ótal ræðum að hún vilji gera, þannig að hér væri sannarlega fengur að skýringum hennar í þessum efnum.

Varðandi síðan yfirtöku Háskóla Íslands á verkefnum Norrænu eldfjallastöðvarinnar sé ég ekki annað en að hér sé í bígerð spennandi stofnun nýrrar Jarðvísindastofnunar við Háskóla Íslands og ég verð að segja að ég fagna því líka þar sem stofnanir háskólans hafa verið að koma til liðs í auknum mæli. Þær hafa verið að eflast, bæði Umhverfisstofnun og Siðfræðistofnun, svo eitthvað sé nefnt, þannig að ný öflug Jarðvísindastofnun kemur til með að auka veg Háskóla Íslands og jarðvísinda almennt í umræðunni.

Í skýringu við 2. gr. kemur fram að verið sé að vinna að þessu máli á grundvelli viljayfirlýsingar sem háskólaráð og skrifstofa Norrænu ráðherranefndarinnar hafi undirritað og það sé gert með fulltingi menntmrn. Eins og þetta virkar í frumvarpstextanum sé ég ekki annað en að það sé ástæða til að horfa björtum augum til framtíðar varðandi það að hér sé verið að bæta við einni stoð í þegar öflugan Háskóla Íslands.

Eins og ég segi er hér mál á ferðinni sem menntmn. Alþingis mun fara yfir af kostgæfni og ég þakka líka þær ábendingar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur komið hér inn með í ljósi og krafti þekkingar sinnar á þessum málum. Ég held að þessi mál verði tekin til skoðunar af alvöru í nefndinni.