Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:01:55 (5956)

2004-04-01 11:01:55# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:01]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi ekki að vera beiskir yfir þeim umræðum sem fram hafa farið á þingi og annars staðar um menntastefnuna í þjóðfélaginu, m.a. að því sem lýtur að Háskóla Íslands.

Við erum að tala um sjálfstæði háskólans. Hv. þingmenn Samf. hafa undirstrikað það og ég tel ekki óeðlilegt að Háskóli Íslands taki sjálfur á þessu málefni, hvort hann eigi að knýja á um þá heimild sem felst í skólagjöldum. Hentar það stefnu skólans? Styrkir það menntun skólans? Styrkir það gæði kennslunnar? Þetta er sjálfsögð menntastefna sem sjálfstæður háskóli á að taka ákvörðun um. Með því er ég alls ekki að segja að ég komi til með að firra mig ábyrgð eða taka ákvörðun í þessu máli. Að sjálfsögðu er hinn pólitíski vettvangur allt annað svið.

Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að vanda mjög til allrar vinnu sem viðkemur menntastefnunni, sér í lagi þegar kemur að Háskóla Íslands. Það er alls ekki sjálfgefið að hér verði tekin upp skólagjöld, m.a. með tilliti til þess að þau koma til með að hafa í för með sér umtalsverð fjárútlát fyrir ríkissjóð. Af hverju segi ég það? Það er m.a. út af því að Lánasjóður íslenskra námsmanna mun að sjálfsögðu lána að fullu fyrir skólagjöldum við Háskóla Íslands sem og aðra skóla. Ég bendi á að slík heimild mundi hafa umtalsverð fjárútlát fyrir ríkissjóð í för með sér.

Í ljósi þess að Háskóli Íslands kallar eftir því að fá að vera sjálfstæður --- hann er sjálfstæður skóli --- er sjálfsögð og eðlileg krafa að hann taki ákvörðun um það sjálfur hvort hann vill fá skólagjöld. Það hefur bein áhrif á kennsluna, hvort við aukum gæði kennslunnar og aukum fjölbreytnina. Það hefur áhrif á starfsemi skólans ef þeir fá heimild til skólagjalda.

Síðan getum við alltaf, ég og hv. þm., tekið sennu um hvort við eigum að heimila skólagjöld. Hv. þm. hefur þegar lýst því yfir að hann vilji skólagjöld á framhaldsháskólanám.