Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 11:29:15 (5967)

2004-04-01 11:29:15# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[11:29]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti, sem svo hefur verið ávarpaður frá upphafi Alþingis hins nýja og er í sjálfu sér slíkur virðingartitill, að vera forseti Alþingis, að ekki þarf að bæta við hann. Leita má í Alþingistíðindum nokkuð lengi og víða að lýsingarorðum sem höfð eru um hann. Menn geta séð að alla jafna er nóg að ávarpa forseta með þeim fína titli, með því virðingarheiti og þarf ekki við það að bæta.

Um ræðu hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur er það að segja að það sem við erum að tala um er sjálfstæði háskólans. Um það ræddi menntmrh. lengi vel, einkanlega í svari sínu við ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Það er þess vegna sem þetta mál er sérstaklega tekið til umræðu. Samrýmist það sjálfstæði háskólans að skipaðar séu fastar dómnefndir sem sitja hver um sig í þrjú ár, að mig minnir, og hafa þess vegna gríðarlega mikið að segja um stefnu deildarinnar sjálfrar og þess meginfræðasviðs sem um er að ræða? Samrýmist það sjálfstæði háskólans?

Þá er vert að minnast á, þótt núverandi hæstv. menntmrh. hafi ekki staðið fyrir því, breytingar á háskólanum í verri átt í tíð núverandi ríkisstjórnar þegar yfirstjórn háskólans var breytt með þeim hætti að menntmrh. á þar beina pólitíska fulltrúa. Það er ekki í sjálfstæðisátt fyrir Háskóla Íslands. Þetta er það ekki heldur. Það hefði verið full ástæða til að gera þetta með öðrum hætti. Það hef ég sagt í stólnum að ég muni leggja til að gert verði í menntmn.