Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:11:02 (5979)

2004-04-01 12:11:02# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:11]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Já, það verður eiginlega að virða mér til vorkunnar að ég hef ekki alveg tekið eftir og ekki alveg skilið kjarnann í málflutningi hæstv. menntmrh. Hér höfum við staðið --- ætli það sé ekki kominn einn og hálfur tími eða svo --- og rætt um frv. sem hæstv. menntmrh. ætlast ekki til að þingið afgreiði eða leggur þinginu (Gripið fram í.) sjálfu það í vald hvort það vill afgreiða það eða ekki.

Nú er það að vísu svo samkvæmt stjórnarskrá að enginn segir þinginu neitt um það hvort það eigi að afgreiða frv. eða ekki. Hins vegar hefur hefðin verið sú þegar ráðherrar leggja fram frumvörp í þessari þingræðisskipun okkar, sem ég tel ekki til fyrirmyndar og tel að við eigum kannski að fara að endurskoða, að þá hefur það verið þannig að þau eru lögð fyrir fundi stjórnarflokkanna sem samþykkja þau með tilteknum hætti. Síðan koma menn gassamiklir hér í ræðustól og segja að meiri hluti þingsins hafi ákveðið eitt og annað.

Það upplýsist sem sagt hér með að hæstv. menntmrh. hefur engan áhuga á því að þetta frv. verði að lögum. Háskóli Íslands hefur sérstaklega beðið um að menn fari sér mjög hægt í þessu máli og gefur þau sérstöku ráð til ráðherrans og nú þingsins að þetta frv. verði geymt. Það er þá kannski ráð að setja það undir koddann og vera ekki að eyða tíma Alþingis, þjóðarinnar, fjölmiðlanna, háskólamanna og annarra sem nærri koma í að spyrja út í eða stæla um það sem ekki á að fjalla um og ekki á að afgreiða.