Háskóli Íslands

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:12:52 (5980)

2004-04-01 12:12:52# 130. lþ. 93.1 fundur 780. mál: #A Háskóli Íslands# (dómnefndir, auglýsingar um störf o.fl.) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:12]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna sem, eins og hv. þm. Mörður Árnason gat um áðan, er búin að standa í meira en einn og hálfan klukkutíma. Það er auðvitað fyrst og fremst vegna þess að hv. þingmenn Samf. hafa notað tækifærið í þessari umræðu um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 41/1999 að tala um skólagjöld við háskólann.

Mér liggur ýmislegt á hjarta varðandi skólagjöld í Háskóla Íslands og þó svo hér sé ekki verið að fjalla um þau samkvæmt dagskrá þingsins get ég ekki látið hjá líða vegna þess að umræðan hefur þróast þannig og verið þannig lögð út af þessum hv. þm., að útlista það hér að sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs varðandi skólagjöld í Háskóla Íslands eru algerlega skýr. Þau eru ekki hin sömu og Samf. sem virðist vera tilbúin að samþykkja skólagjöld í Háskóla Íslands þegar um framhaldsnám er að ræða. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er alfarið á móti skólagjöldum í Háskóla Íslands. Það er að hluta til vegna þess að það mundi skerða til verulegra muna jafnrétti til náms, jafnrétti til grunnnáms og jafnrétti til framhaldsnáms.

Ég hef þörf fyrir að þetta komi fram hér líka vegna þess að hæstv. menntmrh. hefur dregið fram í umræðuna þá staðreynd að þó svo að skólagjöld yrðu lögð á þá yrðu þau að öllum líkindum lánshæf hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það hefur sömuleiðis komið hér fram að það mundi auðvitað auka verulega útgjöld hins opinbera því námslánin eru að sjálfsögðu niðurgreidd af hinu opinbera. Við skulum vera í þeirri umræðu minnug þess að Bandalag háskólamanna hefur til skamms tíma mótmælt því að byrðar á námsmenn séu auknar svo að nokkru nemi og hafa fært okkur heim sanninn um það hvernig greiðslubyrði námsmanna vegna námslána hefur verið að þróast. Hún hefur verið að aukast gífurlega mikið. Það er svo komið að háskólamenn eru að greiða allt upp í ein mánaðarlaun á ári í afborganir af námslánum og ég verð að segja, virðulegur forseti, að ekki er á þá greiðslubyrði bætandi. Þjóðskóli á að mínu mati og okkar hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs ekki að stefna inn á þá braut að leggja einhver hundruð þúsunda króna í skólagjöld á hverju einasta ári á nemendur Háskóla Íslands og nota námslánasjóðinn sem einhvers konar líflínu í þeim efnum að rökstyðja að slíkt verði gert. Við eigum einfaldlega að halda þjóðskólanum utan við skólagjöld. Við eigum að hafa reisn til þess að gera það. Við höfum skattkerfi og ríkissjóð sem getur gert okkur það kleift þannig að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur algerlega skýr sjónarmið í þessum efnum. Ég vil að þau komi hér fram úr því að hv. þm. fengu þessa umræðu til þess að þróast á þá vegu sem raun ber vitni.

Varðandi síðan síðasta atriðið sem hv. þm. Mörður Árnason ræddi um og laut beint að frv. sem hér er til umræðu, vil ég segja að ég met það í sjálfu sér við hæstv. menntmrh. að frv. skyldi ekki hafa verið breytt þegar það var komið hér fram á prentuðum skjalapappír í þingsölum þó svo að bréfið frá háskólanum hafi borist til hæstv. ráðherra. Mér finnst ekki óeðlilegt að menntmn. Alþingis fái að fjalla um þetta mál faglega og ígrundað með því að kalla til alla þá sem hafa tjáð sig um málið, alla þá sem eðlilega hafa skoðanir á þessum dómnefndum. Ég verð að segja að ég lít það bara jákvæðum augum að nefndin skuli fá það verkefni upp í hendurnar, vil ég meina, að taka sjálfstæða ákvörðun um hvernig málið skuli unnið áfram. Ég get því ekki tekið undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar að hér sé á einhvern hátt undarlega að verki staðið því að ég sé ekki að málinu hefði verið gerður neinn greiði með því að helminga það niður í það að fjalla eingöngu um Norrænu eldfjallastöðina og sameiningu hennar við Háskóla Íslands. Ég tel að menntmn. Alþingis hafi verk að vinna sem ég sé ekki annað en að sé á hennar verksviði og að það geti verið gefandi og skapandi starf fyrir nefndina fram undan að taka á þessu máli.