Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:33:22 (5989)

2004-04-01 12:33:22# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að fagna því frv. sem hér er lagt fram og vissulega tilbreyting að fjalla um frv. frá ríkisstjórninni sem bætir stöðu atvinnulausra. Við höfum vanist því að fjalla frekar um mál frá ríkisstjórninni eða aðferðir í tengslum við fjárlagafrv. o.fl. sem skerða kjör atvinnulausra. Það þurfti auðvitað verkalýðshreyfinguna til að draga ríkisstjórnina í að bæta kjör atvinnulausra og er það umhugsunarefni að kjarabætur fyrir atvinnulausa þurfi ávallt að vera í tengslum við kjarasamninga en ríkisstjórnin hafi ekki sjálf frumkvæðið að því að bæta það ömurlega hlutskipti í kjörum sem þeim er búið og hafi ekki dug í sér til að færa málið fyrir þingið án þess að það þurfi að vera liður í lausn á kjarasamningum.

Það er tilefni til að fara nokkrum orðum um atvinnulausa og atvinnuleysið í tengslum við þessa umræðu. Ég hef nokkrar fyrirspurnir til hæstv. félmrh. í því sambandi.

Það er ástæða til að draga upp þá mynd að á árunum 1999--2002 hafa atvinnuleysisbætur og lífeyrisgreiðslur, þ.e. grunnlífeyrir og tekjutrygging, hækkað margfalt minna en launavísitala eða laun verkamanna. Þannig sýnir breyting á kaupmætti launa og bóta að meðallaun hafa hækkað um 6%, laun verkamanna um 10%, en atvinnuleysisbætur um 1% og lífeyrisgreiðslur um 2% á árunum 1999--2002. Þessar upplýsingar koma fram í útreikningum sem ég óskaði eftir frá ASÍ. Þetta sýnir ljóslega, þegar við skoðum kaupmátt þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu, að hann er mun minni en annarra og er ég þá sérstaklega að tala um stöðu atvinnulausra og lífeyrisþega. Þetta eru sláandi upplýsingar um hvernig núverandi ríkisstjórn hefur skilið atvinnulausa og lífeyrisþega eftir úti í kuldanum á undanförnum árum. Þetta er hinn blákaldi sannleikur um hvernig bótaþegar, þeir tekjulægstu í þjóðfélaginu, hafa verið hlunnfarnir af ríkisstjórninni.

Frumvarpið á að hækka atvinnuleysisbætur um 11,3% og fara í 89 þús. kr. 1. mars, þ.e. hækka um 10 þús. kr. Þá er líka ástæða til að rifja upp, virðulegi forseti, að samkvæmt upplýsingum fyrrverandi félmrh. á Alþingi í svari til mín hefðu atvinnulausir haft um 15 þús. kr. meira á mánuði í atvinnuleysisbætur ef ekki hefði verið afnumið á árinu 1996, af þessari sömu ríkisstjórn, að miða greiðslur atvinnuleysisbóta við taxta almenns fiskvinnslufólks. Við erum því að tala um að atvinnulausir hefðu haft 15 þús. kr. meira á mánuði, eða 180 þús. kr. á ári, ef ekki hefðu verið afnumin tengsl atvinnuleysisbóta við taxta almenns fiskvinnslufólks. Áður höfðu atvinnuleysisbætur fylgt þeim taxta og því haldið í við launagreiðslur á vinnumarkaði.

Í stað þess voru teknar upp nokkurs konar geðþótta\-ákvarðanir af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ákveðið var að miða lífeyri og atvinnuleysisbætur við almenna launaþróun eða verðlag sem ákveðið hefur verið síðan við fjárlagaafgreiðslu hverju sinni.

Þegar sá litli lífeyrir sem þeir sem eru atvinnulausir fá er tekinn inn í reikninginn þá er til skammar að málum skuli þannig háttað að atvinnulausir skuli greiða skatt af atvinnuleysisbótum, greiða skatt af þeim litlu bótum sem þeir hafa. Sömuleiðis er fjárhagsaðstoðin einnig skattlögð. Fjárhagsaðstoð gengur í töluverðum mæli til atvinnulausra. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna hefur aukist um nær helming frá árinu 2000--2003 og farið úr 600 millj. kr. í rúmar 1.100 millj. kr., virðulegi forseti. Það sýnir náttúrlega ljóslega að fólk getur ekki lifað af þessum bótum og sækir því til sveitarfélaga sinna til að fá viðbót á framfærslu sína og hefur fjárhagsaðstoðin vaxið á þremur árum úr 600 millj. kr. í rúmar 1.100 millj. kr. árunum 2000--2003.

Nú vil ég spyrja hæstv. félmrh. hvort hann telji að hætta eigi að skattleggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Það hefur verið áhugamál sveitarfélaganna um langan tíma og réttlætismál að hætta að skattleggja fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort honum finnist eðlilegt að greiddur sé skattur af atvinnuleysisbótum, hvort hann sé ekki reiðubúinn til þess a.m.k. að sest verði yfir að skoða hvort ekki sé réttlætanlegt að finna leiðir til að hætta að skattleggja fjárhagsaðstoð og atvinnuleysisbætur.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti eitthvað upplýst okkur um hvað líði þessum tillögum til úrbóta um aðgerðir gegn fátækt. Ég er margbúin að kalla eftir því í allan vetur og þetta virðist aldrei sjá dagsins ljós þótt bæði hæstv. félmrh. og hæstv. forsrh. hafi í ræðustól kynnt úrbætur í þeim efnum og að tillagna um aðgerðir væri að vænta á næstu dögum. Ég hef áhyggjur af því að ef fram koma bærilegar tillögur, sem ég ætla að leyfa mér að vona, þurfi lagabreytingar til. Það er ekki mjög langt eftir af tíma þingsins þannig að ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki fylgst með, ef það er forsrh. að kynna þessar tillögur, og hvort við fáum ekki bráðum að sjá þær.

Hæstv. ráðherra boðaði að hann væri að setja á fót nefnd sem ætti að skoða og endurskipuleggja vinnumarkaðsaðgerðir, stöðu atvinnulausra og skoða einnig árangur og meta vinnumarkaðsaðgerðir sem hefði verið farið í á síðastliðnum árum. Ég fagna því að slík nefnd sé að störfum. Ég hefði viljað sjá að hæstv. ráðherra hefði fyrr sett þessa nefnd á fót. Allt tekur þetta tíma og mér finnst staða atvinnulausra slík að aðgerðirnar þoli ekki bið.

Við sjáum, hæstv. forseti, nýjar birtingarmyndir atvinnuleysisins í þjóðfélaginu. Við sjáum, eins og fram kom nýlega, að atvinnuleysi vex meðal fólks með háskólapróf. Þar er talað um að atvinnuleysi hafi tvöfaldast á undanförnum árum. Við sjáum í verulegum mæli atvinnuleysi menntafólks. Við sjáum í auknum mæli, eins og fram kemur í úttekt Vinnumálastofnunar á atvinnuleysi, atvinnuleysi hjá ungu fólki og atvinnuleysi núna í febrúarmánuði árið 2004 nam 3,6%. Á sjötta þúsund manns eru atvinnulaus. Atvinnulausir eru langflestir á höfuðborgarsvæðinu, 3.377 og á landsbyggðinni 1.720.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að atvinnuleysi sé að aukast hjá menntafólki og hjá ungu fólki. Ég vil spyrja hann hvort það eigi bara að vísa því á þá nefnd sem er að skoða málið eða hvaða skoðun hæstv. ráðherra hefur á þessu aukna atvinnuleysi hjá ungu fólki.

Í þessari umræðu er ástæða til að vitna til þess sem Jón Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ráðningarþjónustunnar, segir í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21. mars, að hann segist vart muna eftir jafnslæmu atvinnuástandi og nú.

Með leyfi forseta, segir hann orðrétt:

,,Hann segir að sér hafi borist 1.100 til 1.200 nýjar atvinnuumsóknir frá áramótum og hjá Ráðningarþjónustunni séu nú um 4.500 manns virkir að leita sér að atvinnu.``

Þar eru hvorki meira né minna en 4.500 manns virkir að leita sér að atvinnu.

Orðrétt segir hann:

,,Atvinnuástandið er einfaldlega mjög slæmt. Það kom smá kippur í þetta núna í mars og maður hélt að góðærið væri að byrja en það er ekki svo.``

Og áfram heldur Jón, með leyfi forseta:

,,Ég held utan um þetta frá ári til árs og ég er ekki ánægður með að vera með 4.500 manns sem eru að leita sér að vinnu og margir búnir að vera að því í meira en ár. Fyrirtækin eru að halda að sér höndum, en þetta er mánuður þar sem allt á að vera í blússandi gangi í ráðningum. Þetta verður því svipað og í fyrra og hittiðfyrra. Félagsmálaráðherra hefur sagt á Alþingi að það séu um 5.000 manns atvinnulausir, en spurningin er hvar þeir eru atvinnulausir. Ég segi að það sé ekki minna en 6% atvinnuleysi hér á höfuðborgarsvæðinu, því miður, og það hefur ekkert gætt þessarar velmegunar frá Kárahnjúkum sem búist var við.``

Þetta er maður sem á hverjum degi tekur púlsinn á þessu. Hann segir að hann muni vart eftir jafnslæmu ástandi á vinnumarkaðnum og tiltekur að a.m.k. 4.500 manns séu virkir núna í atvinnuleit.

Við horfum upp á nýjar birtingarmyndir atvinnuleysis og ég man ekki eftir því að hafa heyrt eins mikið talað um það og á undanförnum mánuðum og missirum að fólk yfir ákveðnum aldri, með kennitölu sem sýnir að fólk er 45 ára, 50 ára eða eldra, virðist lítið sinnt á vinnumarkaðnum. Það hefur þær sögur að segja að því sé raunverulega vísað af vinnumarkaðnum og ekki virt viðlits. Þegar þetta fólk er að sækja um vinnu hjá ráðningarstofum eða vinnumiðlunum segist það sjaldnast kallað í viðtal. Samt er um að ræða fólk sem ég þekki til að er vel menntað. Það fær enga vinnu, hvorki við sitt hæfi né í láglaunastörfunum í þjóðfélaginu. Sú sem hér stendur er í nefnd á vegum hæstv. félmrh. sem er að skoða þetta vandamál á vinnumarkaðnum. Það er nokkuð alvarlegt, að fólk fái ekki orðið vinnu á vinnumarkaði þegar það er komið yfir 45--50 ára aldur.

[12:45]

Ég held að þetta sé ekki svona í löndunum í kringum okkur. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta eitthvert séríslenskt fyrirbrigði að þegar fólk er komið yfir ákveðinn aldur fái það ekki vinnu, að það sé litið á kennitöluna, reynslan sé raunverulega einskis metin hjá þessu fólki eða menntun sem það hefur aflað sér, að fyrst og fremst sé litið á kennitöluna? Þetta fólk er ekki virt viðlits á vinnumarkaðnum og ekki einu sinni kallað í viðtöl á ráðningarstofum. Þetta fólk er mánuðum saman atvinnulaust og það drepur niður fólkið, því finnst að þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn sé að hafna því. Þetta er alvarlegt vandamál sem við verðum að taka á.

Þegar við ræðum um stöðu atvinnulausra verður ekki hjá því komist að ræða að verulegar kostnaðarhækkanir hafa orðið á ýmsu sem þetta fólk þarf á að halda, kannski umfram aðra vegna þess að atvinnulausir þurfa oft að leita sér læknisaðstoðar og kaupa lyf sem hafa hækkað verulega. Það er mál sem við þurfum að taka á og í svari t.d. frá hæstv. forsrh. sem ég hef fengið kemur fram að útgjöld vegna húsnæðiskostnaðar hefur hækkað alveg gífurlega á síðustu fjórum árum, um 54,5% eða tæplega 25% umfram almennt verðlag og það hefur orðið veruleg hækkun í heilbrigðisþjónustunni umfram verðlag. Það hefur orðið mjög mikil hækkun á skólagjöldum, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi og hefur sömuleiðis orðið um 30% hækkun á verðlagi í heilbrigðisþjónustunni. Þetta bitnar með fullum þunga á atvinnulausum. Ég held að þessi litla hækkun sem við ræðum geri lítið meira en að ganga upp í þær hækkanir sem við höfum verið að upplifa á ýmsum þjónustuþáttum á undanförnum mánuðum og missirum.

Það hefur líka komið fram að veruleg hækkun er á ýmiss konar þjónustu hjá hinu opinbera umfram almennt verðlag þannig að ég held að þetta sé ekki til að hrópa hátt húrra fyrir sem atvinnulausir eru að fá.

Varðandi jólauppbót atvinnulausra. Ég hef aldrei skilið hvers vegna ríkisstjórnin gekk svo langt í skerðingu á kjörum þessa fólks að atvinnulausir fá enga jólauppbót þrátt fyrir að nær allir hópar fái uppbót í einhverju formi þegar kemur að jólunum. Árið 1997 felldi ríkisstjórnin niður sérstaka uppbót á atvinnuleysisbætur sem verið hafði í gildi frá árinu 1990, án þess að atvinnuleysisbætur hafi hækkað samsvarandi, og atvinnuleysisbætur sem voru árið 1996 hærri en byrjunartaxti fiskvinnslufólks er nú 11 þús. kr. hærri. Launauppbótin sem var felld niður á fyrri hluta árs 1997 var að fjárhæð 27.685 kr. á ári. Það munar um minna, hæstv. forseti, og ég spyr hæstv. ráðherra: Var ástæða til að ganga svo langt að hætta með jólauppbót til atvinnulausra sem allir í þjóðfélaginu fá? Af hverju er með þessum hætti verið að stíga á þá sem minnst mega sín í þjóðfélaginu og taka af þeim lítinn glaðning sem það fékk fyrir jólin? Það er ástæða til að fá fram afstöðu hæstv. ráðherra til þess, sem er nýlega sestur í stólinn. Vonandi hefur hann aðra afstöðu en þeir sem afnumdu hækkunina á árinu 1997.

Herra forseti. Af því að við erum að ræða um atvinnulausa, þó ég ætli mér ekki að fara að taka upp umræður um fæðingarorlofið sem hæstv. ráðherra hefur lagt inn, þá hef ég fengið símtöl og tölvupóst frá atvinnulausu fólki sem hefur áhyggjur af því sem fram kemur í fæðingarorlofslögunum, þ.e. við hvaða tekjur verið er að miða greiðslur á fæðingarorlofi. Nú á að fara að miða við 24 mánaða meðaltal tekna. Ég er með tölvupóst upp á tvær síður frá ungum hjónum þar sem maðurinn hefur verið atvinnulaus í tvö ár og þetta eru hjón sem langar til að fara að eignast barn.

Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ef við förum nú að leyfa okkur það að eignast barn mun fæðingarorlofið sem ég fæ skerðast svo mikið, vegna þess að ég hef verið atvinnulaus í tvö ár, að ég mun ekki fá nema kannski 20% af þeim tekjum sem ég hafði fyrir þremur árum síðan þegar ég var á vinnumarkaðnum.``

Í sjónvarpsþætti þar sem rætt var við hæstv. ráðherra kom fram að það eru undanþágur varðandi viðmiðanirnar um tvö ár fyrir stúdenta og foreldra sem eignast annað barn fljótlega. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er ekki full ástæða til að skoða það þegar við erum að tala um mikið langtímaatvinnuleysi hjá fólki að gerðar séu undanþágur að því er varðar þessi tímamörk þegar fólk er atvinnulaust og tímabilið á undan skoðað þegar fólkið var virkir þátttakendur á vinnumarkaði þannig að fæðingarorlofsgreiðslur séu miðaðar við það? Mér finnst þetta vera réttlætismál og ég tel mig þekkja hæstv. félmrh. það vel að þetta væri eitthvað sem hann mundi a.m.k. vilja hugsa um þegar þetta er svona stórt vandamál gagnvart atvinnulausum.

Ég hafði ekki áttað mig á því fyrr en ég fór að heyra mikil viðbrögð frá atvinnulausum eftir að nýja fæðingarorlofið kom fram að hér er greinilega um stórt vandamál að ræða, og ég spyr: Hver var reynslan af fæðingaorlofslögunum þegar miðað var við eitt ár gagnvart atvinnulausum? Sjálfsagt hefur hæstv. ráðherra kynnt sér það, ég hef ekki haft tíma til þess, en það væri mikilvægt að fá það í umræðuna og ég held að það mundi vera mikið réttlætismál gagnvart atvinnulausum ef hæstv. ráðherra og félmn., þegar hún fær málið til umsagnar, mundu íhuga að gera þær breytingar sem tryggðu að réttur atvinnulausra til fæðingarorlofs væri miðaður við annan tíma en þegar það er í bullandi langtímaatvinnuleysi með mjög litlar tekjur. Mér finnst ekkert annað sanngjarnt í þessu.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég hef lagt ýmsar spurningar fyrir hæstv. ráðherra. Ég vona svo sannarlega að atvinnulausir og fátækir í þjóðfélaginu fari að sjá bjartari tíma þó ég geri mér ekki ýkja miklar vonir um það miðað við hvernig núverandi ríkisstjórn hefur verið að hlunnfara þessa hópa. Ég verð þó að segja að ég bind enn þá vonir við skýrsluna sem hefur verið unnin, m.a. á vegum félmrh., um úrbætur og aðgerðir fyrir fátæka og ég vona að við sjáum hana á þingi áður en þingið fer heim.