Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 12:58:47 (5992)

2004-04-01 12:58:47# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[12:58]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Ég heyri að við erum sammála, ég og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, um að eðlilegt sé að atvinnuleysisbætur taki mið af lágmarkslaunum. En þá er líka rétt að fylgja því eftir að það er ekki ríkisstjórn sem semur um launin. Það eru aðilar vinnumarkaðarins og eðlilegt að atvinnuleysisbætur taki mið af því. Um það er greinilega ekki ágreiningur hjá mér og hv. þm.

Mér finnst hv. þm. tala dálítið sem hin flekklausa og saklausa í umræðum um atvinnuleysisbætur. Og af því að hv. þm. nefndi engar tölur um hækkun atvinnuleysisbóta þegar hún var félmrh. skal ég rifja þær upp. Samkvæmt útskrift frá félmrn. hækkuðu bætur 1992 um 1,7%, sem er ekki mikil hækkun. Ef hv. þm. man ekki betur skal ég líka rifja upp hvernig tölurnar voru 1993. Þær voru 0%. Og ekki skánaði það 1994 því þá voru þær líka 0%.

[13:00]

Það þýðir því ekki fyrir hv. þm. að koma upp og segja að aldrei í sögunni hafi það gerst, a.m.k. ekki í hennar tíð, að bætur til atvinnulausra hafi verið skertar. Auðvitað voru þær skertar. Og 0% hækkun á atvinnuleysisbótum er 0% meðan verðbólga er í landinu þar að auki. Það er því skerðing og ekkert annað. Og minnsta hækkun sem orðið hefur á bótum var í félagsmálaráðherratíð Jóhönnu Sigurðardóttur.

Frá því að kratar fóru úr félmrn. og þar til núna hafa atvinnuleysisbætur hækkað um u.þ.b. 130%, voru rúmlega 40 þús. kr. þegar kratar slepptu félmrn. og eru núna að fara í um 89 þús. kr. Það er ekki mikil upphæð en það er mikil hækkun. Þess vegna finnst mér einkennilegt að heyra hv. þm. tala hér sem hin syndlausa og flekklausa.