Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:43:50 (5999)

2004-04-01 13:43:50# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Það er mjög mikilvægt að þegar sé tekið á þessum málum og þau rædd, ekki bara núna við þessa umræðu heldur fari út í þjóðfélagið og verði virk umræða meðal atvinnurekenda og launþega. Ég tel að í framhaldi af því komi sú umræða hingað inn á hv. Alþingi þar sem mér finnst mikilvægt að við horfum til nágrannalanda okkar og setjum takmarkandi reglur um möguleika atvinnurekenda á að taka ýmist sýni eða krefjast persónulegra upplýsinga frá starfsmönnum sínum.

Aftur á móti finnast mér mjög skiljanlegar áhyggjur margra vinnuveitenda og það hefur komið fram að margar óskir um upplýsingar um aðgerðir til að upplýsa um fíkni- og vímuefnaneyslu hafa borist frá félagasamtökum, eins og verslunarfélögum úr Samtökum atvinnulífsins, og spurningar um það hvernig eigi að bregðast við. Í því þjóðfélagi sem við búum í núna, með sívaxandi og aukinni neyslu ólöglegra vímu- og fíkniefna, er spurt hvaða leið eigi að fara. Ég tel að það að opna fyrir þá leið sem hefur verið farin í Straumsvík sé of mikið, það gangi allt of nærri persónufrelsi starfsmanna að láta þá skrifa undir slíka yfirlýsingu þar sem hún er allt of opin og gefur vinnuveitendum allt of mikið vald yfir starfsmönnunum.

Það á að fagna því að fyrirtæki hafi ábyrga starfsmannastefnu en ef grunur kemur upp um neyslu tel ég miklu vænlegri leið að byrja á því að kalla til meðferðarfulltrúa eða aðra sérfræðinga sem haldi fund með starfsmönnum, fræði og upplýsi og hjálpi þar með fíklinum til þess að fara í meðferð og taka þannig á vandanum.