Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:55:20 (6004)

2004-04-01 13:55:20# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að taka þessa umræðu hingað inn á Alþingi. Í ráðningarsamningum hjá Alcan sem varð kveikjan að þessu máli segir að fyrirtækið, með leyfi forseta, ,,áskilji sér rétt til að kalla menn í rannsókn hvenær sem er``. Undir þetta eru starfsmenn látnir skrifa þegar þeir eru ráðnir til starfa.

Hæstv. ráðherra sagði að nauðsynlegt væri að taka umræðu um þetta mál hjá Vinnueftirliti ríkisins. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins, hefur þegar tjáð sig um málið. Það gerði hann m.a. á vefsíðu BSRB í síðustu viku. Þar segir hann að sér finnist þetta vera siðferðislega rangt. Orðrétt segir yfirlæknirinn, með leyfi forseta:

,,Fræðilegu rökin fyrir þessari leið eru heldur ekki sterk í mínum huga og koma málinu takmarkað við nema í mjög völdum tilfellum. Ég hvet til umræðu um málið. Hún er bráðnauðsynleg og ég fagna því að hún skuli hafin.``

Hvað er í húfi? Í mínum huga er það mjög einfalt mál. Mannréttindi eru í húfi. Spurningin snýst um það hvaða vald eigi að færa atvinnurekandanum til að ryðjast inn í einkalíf fólks. Atvinnurekandinn á að hafa rétt til að ganga úr skugga um það hvort starfsmaður ræki þær skyldur sem starfið krefst af honum en hann á ekki að hafa rétt til þess að kanna hvað býr þar að baki ef um heilsufar einstaklingsins er að ræða. Það á að vera mál einstaklingsins og heilbrigðiskerfisins en ekki atvinnurekandans.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagðist ekki skilja hvers vegna þessi umræða færi fram. Ég vil ráðleggja honum að lesa bækur Georges Orwells. Hann skrifaði um forræðis- og eftirlitsþjóðfélagið. Þar er að finna skýringuna á þessari umræðu.