Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 13:57:33 (6005)

2004-04-01 13:57:33# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), SKK
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[13:57]

Sigurður Kári Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að í umræðu um töku lífsýna úr starfsfólki vegast á mikilvægir hagsmunir vinnuveitenda og starfsmanna en einnig hagsmunir samstarfsmanna þeirra og ekki síst neytenda. Í þessari umræðu hafa verið færð rök fyrir því að taka lífsýna úr starfsfólki fyrirtækja eigi ekki rétt á sér og fari gegn viðteknum meginsjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að veigamikil rök má færa fyrir gagnstæðri skoðun þó að ég sé ekki fylgjandi því að slíkt verði gert að meginreglu á vinnumarkaðnum. Það geta engu að síður verið rök til þess að grípa til slíkra aðgerða.

Í umræðunni mega menn ekki gleyma því að ein meginskylda vinnuveitanda er að tryggja öryggi starfsmanna sinna en jafnframt ber vinnuveitendum skylda til þess að tryggja að þeir sem leita eftir þjónustu viðkomandi fyrirtækis megi ekki eiga það á hættu að ástand starfsmanna þess kunni að leiða til tjóns fyrir viðkomandi. Slík varúðarskylda og aðgerðir til þess að takmarka tjón eða koma í veg fyrir að tjón verði getur réttlætt að vinnuveitendur áskilji sér rétt til þess að kanna ástand starfsmanna sinna. Ég tel hins vegar mikilvægt að slíkur áskilnaður liggi fyrir, helst áður en til vinnuréttarsambands stofnast, þannig að starfsmaður viti að hverju hann gengur verði hann ráðinn þegar hann óskar eftir því að vera tekinn í vinnu.

Virðulegi forseti. Sum störf eru þess eðlis að framkvæmd þeirra getur talist hættuleg auk þess sem afleiðingar þeirra slysa geta verið mjög alvarlegar. Í slíkum tilfellum kann að vera rétt að gera áskilnað þann sem ég hef hér nefnt. Í því sambandi má nefna dæmi um starfsmenn sem vinna í hættulegu umhverfi, svo sem við vinnuvélar, þótt ekki væri nema til að tryggja öryggi starfsmanna þeirra. Það sama má t.d. segja um lækna og heilbrigðisstarfsmenn sem fara með mikilsverða hagsmuni í störfum sínum. Þá má ekki gleyma flugmönnum, flugstjórum og öðrum flugverjum og reyndar er slíkt eftirlit heimilað í 37. gr. laga um loftferðir.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að ég vil ekki sjá að þetta verði meginregla á vinnumarkaði og að menn gæti hófs, skilgreini tilgang þessara athugana og upplýsi starfsmenn sína um það.