Lífsýnatökur úr starfsfólki

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 14:00:05 (6006)

2004-04-01 14:00:05# 130. lþ. 93.95 fundur 454#B lífsýnatökur úr starfsfólki# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að taka þessa áleitnu spurningu upp til umræðu í þinginu. Ég vil lýsa því jafnframt yfir að það hefur verið dapurlegt að fylgjast með ræðuhöldum ungra sjálfstæðismanna hér við umræðuna þar sem þeir hafa reynt að mæla bót þessari aðför að persónufrelsinu. Það er alveg ljóst að Samf. hefur tekið við hlutverki Sjálfstfl. sem helsti talsmaður persónuverndar og friðhelgi einkalífsins á þessum vettvangi og um þessi efni.

Ég þakka líka hæstv. félmrh. fyrir svör hans um leið og ég verð að lýsa mig algerlega ósammála þeim sjónarmiðum sem hann setur fram um að hér sé um að ræða réttlætanlegar aðgerðir og þær byggi á málefnalegum sjónarmiðum.

Við skulum taka þetta tilvik með Íslenska álfélagið í Straumsvík. Það liggur alveg fyrir að þetta er í andstöðu við starfsmennina. Það er ekki annað að skilja á aðaltrúnaðarmanni starfsmanna en að þetta sé nauðung starfsmönnunum en ekki gert af fúsum og frjálsum vilja, umsamið af þeirra hálfu. Það á auðvitað strax að hringja bjöllum þegar þannig er í pottinn búið.

Í öðru lagi nær aðgerðin til allra starfsmanna álversins í Straumsvík. Jafnvel þótt menn litu svo á að hluti starfsmanna þar sinnti svo veigamiklum og hættulegum störfum að nauðsynlegt væri að þeir gengjust undir slík ákvæði getur það ekki átt við um alla starfsmenn í Straumsvík og hlýtur þess vegna að vera allt of víðtæk aðgerð. Fyrst og fremst hygg ég þó að þessi umræða endurspegli að hér vantar algerlega tilefnið. Það að allir starfsmenn í fjölda fyrirtækja þurfi að gangast undir það að afsala sér friðhelgi einkalífs síns með þeim hætti sem hér hefur verið lýst kann að vera nauðsynlegt en ef svo væri þyrftu að vera fyrir slíku ríkir almannahagsmunir og sannanleg tilefni. Í allri þeirri umræðu sem við höfum hér átt hafa engin tilefni komið fram.