Atvinnuleysistryggingar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 14:09:36 (6010)

2004-04-01 14:09:36# 130. lþ. 93.5 fundur 816. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (hækkun bóta) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ágæt umræða fór fram um þetta málefni hér í morgun og það er út af fyrir sig ástæða til að fagna því að verið er að hækka atvinnuleysisbætur. Samt er hækkunin staðfesting á þeirri láglaunastefnu sem gildir í landinu og hefur gilt til langrar tíðar. Sú stefna þarf svo sannarlega á því að halda að menn taki hana til endurskoðunar og aldrei kannski meira en nú vegna þess að fátækt í okkar auðuga þjóðfélagi er auðvitað okkur til skammar. Þeir sem lifa á atvinnuleysisbótum eru virkilega í þeim hópi að mega teljast fátækir, margir hverjir. Það verður enginn lengi atvinnulaus öðruvísi en það reyni mikið á fjárhaginn.

Mér finnst full ástæða til þess að menn skoði líka hin lágu laun í landinu í samhengi við það sem er að gerast í þeirri alþjóðavæðingu sem er að ríða yfir. Nú gengur það greinilega ekki inn í framtíðina að hér séu svo lágir taxtar sem verið hafa og menn hafi þá afsökun að menn fái ekki þessa taxta borgaða heldur fái menn hærri laun, eins og meira að segja verkalýðsforingjar leyfa sér að útskýra þessi málefni. Það eru virkilega til hópar sem taka strípaða lága taxta. Við stöndum líka frammi fyrir því að erlent vinnuafl er flutt til landsins til að vinna á þessum lágu töxtum, jafnvel fólk með sérþjálfun og sérþekkingu til að vinna við iðnaðarstörf, þ.e. störf sem mega flokkast undir iðnaðarvinnu að ýmsu leyti. Þeir útlendingar sem koma hingað í þessu skyni fá borgaða lágmarkstaxta verkalýðsfélaganna. Það er alveg klárt mál að þetta umhverfi mun draga niður laun á Íslandi í framtíðinni ef menn taka ekki þarna á.

Mér finnst líka ástæða til að ræða um þann tvískinnung sem gætir í sölum Alþingis hvað varðar afstöðuna til þess hvað menn eiga að fá í atvinnuleysisbætur og hvernig menn síðan taka allt aðra afstöðu þegar farið er að tala um aðra hluti, t.d. fæðingarorlof. Fæðingarorlofssjóðurinn var miðaður við að menn fengju borgað í fæðingarorlofinu í samræmi við þau laun sem þeir hefðu í vinnu. Núna er verið að taka peninga úr Atvinnuleysistryggingasjóðnum til að tryggja mönnum laun í fæðingarorlofi, laun sem eru margfalt hærri en atvinnuleysisbæturnar. Hvers vegna hafa menn aðra afstöðu til þess að miða við laun þegar talað er um fæðingarorlof en þegar talað er um atvinnuleysi? Ég tel að ekki geti verið nein jafnréttissjónarmið á bak við það. Ég veit ekki betur en það sé greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð í prósentuvís af launum þannig að sömu aðferð er beitt við söfnun fjármuna í Atvinnuleysistryggingasjóðinn eins og söfnun fjármuna í Fæðingarorlofssjóðinn. Ég verð að segja að mér finnst vafasamt að flytja fjármuni úr Atvinnuleysistryggingasjóði í Fæðingarorlofssjóð á meðan ekki er búið betur að þeim sem atvinnulausir eru. Mér finnst það orka verulega tvímælis að ætla að bjóða svona lágar atvinnuleysisbætur og skerða svo sjóðinn í þeim tilgangi sem þarna liggur fyrir að verði gert.

Mér finnst að það þyrfti að líta á verkefni Atvinnuleysistryggingasjóðs og hvernig megi nota fjármuni hans úr því að þar eru afgangsfjármunir. Ég bendi á að það væri miklu nær að menn skoðuðu möguleikana á því að gefa þeim sem verða atvinnulausir á efri árum en hafa ekki fengið rétt til töku lífeyris möguleika á því að fara fyrr á lífeyri, samanber tillögu sem ég hef gengist fyrir flutningi á í þinginu. Það er miklu nær að Atvinnuleysistryggingasjóður komi til móts við slíka aðila en að hann sé notaður í þeim tilgangi sem þarna hefur verið gert. Ég er ekki á móti Fæðingarorlofssjóðnum en ég tel að fjármögnun hans eigi að vera einsleit og fara fram með greiðslum til hans úr atvinnulífinu, að það eigi ekki að taka peninga úr Atvinnuleysistryggingasjóði í þessum tilgangi, a.m.k. ekki á meðan menn telja sér ekki fært að gera betur við atvinnulausa en gert er.

[14:15]

Mig langar til að hvetja ungan og sprækan, nýjan, hæstv. félmrh. til að fara yfir þessi mál öllsömul og ekki bara hve lúsarleg þau laun eru sem menn fá í atvinnuleysi, heldur líka hvernig komið er fram við það fólk sem er atvinnulaust. Ég hef talað við fleiri en einn og fleiri en tvo og fleiri en þrjá sem hafa lent í því að vera atvinnulausir og hafa gengið þá braut að fá atvinnuleysisbætur. Þeir hafa lýst því yfir við mig að þeir muni allt gera frekar en að fara aftur á atvinnuleysisbætur. Kröfurnar til þess fólks sem þarf að sækja bæturnar eru niðurlægjandi. Bæturnar eru ekki hærri en svo að kannski eru einhverjir möguleikar til þess að komast yfir sambærilega fjármuni með einhverjum öðrum hætti í samfélaginu. Það munu flestir reyna mjög áður en þeir ganga þessa göngu sem hafa reynt hana áður.

Þetta vildi ég segja hér og endurtek að ég hvet hæstv. félmrh. til þess að bjóða fáeinum sem hafa þurft að súpa þá fjöru að vera atvinnulausir og þiggja slíkar bætur til viðtals við sig og fara yfir það hvort komið er fram við þá á sómasamlegan, mannlegan máta.

Ég vildi koma þessu að í umræðunni, hæstv. forseti. Við stjórnarandstæðingar megum búa við það að það getur orðið býsna tvísýnt um að mál sem við flytjum komist til umræðu og því vildi ég vekja máls á þessu þingmáli sem ég nefndi hér áðan, um rétt manna til að flýta starfslokum og töku lífeyris, vegna þess að ég tel að Atvinnuleysistryggingasjóður eigi fullt erindi að koma að þessu. Hann þarf væntanlega að borga ýmsum af þeim atvinnuleysisbætur sem lenda ofarlega á starfsævinni í því að verða atvinnulausir og þess vegna væru full rök fyrir því að sjóðurinn kæmi að því að hægt yrði að flýta lífeyristöku manna sem lenda í þessum aðstæðum. Alþingi ætti að vera skylt að skoða þetta mál því menn viðurkenndu þá staðreynd að það gæti orðið erfitt fyrir menn að tapa vinnunni sinni, verða snögglega atvinnulausir á einhverjum erfiðum tímapunkti, áður en þeir hafa fengið lífeyrisréttindi. Það var tekið á því gagnvart þingmönnum og ráðherrum hér fyrir áramótin og þótti ástæða til að gera það. Þar voru þessar staðreyndir viðurkenndar sem ég hef nefnt og ég tel að það væri ástæða til þess fyrir hæstv. félmrh. að beita sér fyrir því að skoðað verði hvort ekki sé hægt að koma til móts við fleiri launþega en ráðherra og þingmenn ef þeir missa vinnuna á viðkvæmum aldri og eiga erfitt með að fóta sig í atvinnulífinu á ný.

Ég endurtek það svo að lokum að auðvitað hljóta menn alltaf að fagna því þegar eitthvað ávinnst hvað varðar atvinnuleysisbætur. Þessar eru of lágar. Þær munu ekki hækka að marki fyrr en menn taka nýja afstöðu, fyrr en hv. Alþingi breytir um stefnu. Ég segi það vegna þess að hv. þm. Hjálmar Árnason nefndi áðan að það væri ekki Alþingis að breyta um stefnu, aðilar vinnumarkaðarins ákveddu hver lágmarkslaunin væru í landinu. Ég vil bara mótmæla því. Það er einfaldlega hið opinbera, ríkisvaldið, sem er stærsti atvinnurekandinn í þessu landi, gerir kjarasamninga við fjölda fólks og er aðili vinnumarkaðarins. Þessi aðili vinnumarkaðarins, hið opinbera, hefur leitt launaþróunina á undanförnum árum. Hækkanir sem hafa komið eftir samninga við ríkið hafa leitt út um allt þjóðfélag. Ef hið opinbera gerir góða kjarasamninga við fólk sem er á lágum launum hjá því mun auðvitað vinnumarkaðurinn taka mið af þeim samningum. Það er engin spurning að ríkið og þeir sem þar ráða ferð geta haft afgerandi áhrif á það hver lágmarkslaunin eru. Og ég hvet til þess að menn skoði þetta allt í samhengi og fari að móta stefnu sem miðar að því að feta sig út úr þessari láglaunastefnu sem hefur gilt og heldur fólki við fátæktina sem er vissulega til hér.