Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:00:23 (6016)

2004-04-01 15:00:23# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að það væri mikilvægt að arðurinn af vatnsveitunum rynni til samfélagslegra þarfa. Hugsum okkur að sveitarfélag taki lán til að byggja vatnsveitu upp á 100 millj. og greiði af því láni 7% vexti og þeir vextir renni til einhverra manna úti í bæ, sem sagt ekki til samfélagslegra þarfa. Segjum hins vegar að þetta nákvæmlega sama sveitarfélag stofni hlutafélag, að einhverjir aðilar eigi með sveitarfélaginu hlut í þessari vatnsveitu og hlutafélagið borgi 7% arð, nákvæmlega sama arð. Verður hann þá að renna til samfélagslegra þarfa? Eru Vinstri grænir, sá hv. þingflokkur, virkilega að leggja til að við bönnum vexti? Mér heyrist það, nema þeir renni til samfélagslegra þarfa. Það væri kannski alveg nýtt í þessu þjóðfélagi og í ætt við það sem gerðist á miðöldum sums staðar og gerist víst enn þá í örfáum ríkjum, einu kannski, þ.e. slíkar hugmyndir hafa verið uppi þar sem er múhameðstrú, að banna vexti. En það væri alveg nýtt. Síðan segir hv. þm. að BSRB sem er samtök launafólks og hann er víst formaður fyrir, hv. þm., styðji hann í þessu máli.

Finnst honum eðlilegt að samtök sem opinberir starfsmenn verða að greiða í samkvæmt lögum, hvort sem þeir vilja eða ekki, hvort sem þeir eru í þeim eða ekki, séu látnir borga pólitíska stefnu hv. þingmanns?