Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:03:56 (6018)

2004-04-01 15:03:56# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. vill ekki að arður renni til markaðsaðila sem eru víst voðalega vondir menn. Finnst honum þá í lagi að vextir renni frá þessum sömu félögum til markaðsaðila sem m.a. eru lífeyrissjóðir? Það vill svo til að hv. þm. situr í stjórn eins slíks og er einn af þessum grimmu hákörlum sem hirða til sín arð og vexti.

Varðandi samtök launafólks, BSRB, og samanburðinn við Sjálfstfl. er það nú þannig að menn eru ekki skyldaðir til að borga í Sjálfstfl. Þannig er það ekki. Menn geta meira að segja gengið í hann og úr. Það er nefnilega félagafrelsi í landinu, nema þegar kemur að opinberum starfsmönnum. Þeir skulu greiða í BSRB hvort sem þeir vilja eða ekki, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Það er samkvæmt lögum frá Alþingi. Það er spurning hvernig því fólki hjá BSRB, launþegum í BSRB, sem ekki aðhyllast þá stefnu að leggja niður vexti, eða að vextir skuli renna til samfélagslegra þarfa eða allt þetta pólitíska stríð um vatnsveitur, skyldi líða að þurfa að borga til BSRB hvort sem það vill það eða ekki.

Talandi um lýðræði í verkalýðshreyfingunni, ég held að við ættum að hafa sem fæst orð um það.

(Forseti (ÞBack): Ég vil minna hv. þingmann á að við erum að ræða hér um vatnsveitur.)