Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:05:37 (6019)

2004-04-01 15:05:37# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekkert undarlegt að hv. þm. Pétur H. Blöndal vilji vekja athygli á gömlum draumum sínum um að leggja niður verkalýðshreyfinguna eða grafa undan réttindabaráttu samtaka launafólks. Og hvað er svo hræðilegt sem samtök launafólks eru að gera að þessu sinni, BSRB og Alþýðusamband Íslands, í mjög eindregnum áskorunum til Alþingis? Jú, það er að koma í veg fyrir að vatnið, að Gvendarbrunnarnir verði einkavæddir þannig að þeir verði að féþúfu fjárafla- og fjárgróðamanna. Um það snýst þetta mál. Út á það ganga hneykslisræður hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Hvort ég vilji banna vexti eða arð. Að sjálfsögðu ekki. Ég er heldur ekki á móti því að hlutafélög blómstri, enda er ég fylgjandi blönduðu markaðskerfi. Ég andmæli hins vegar því að grunnþjónustan í landinu, hvort sem hún er skólpið, drykkjarvatnið, raforkan, að ekki sé minnst á heilbrigðisþjónustuna, sé einkavædd og færð út á markaðstorgið, í samræmi við það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert að hugsjón sinni.

Varðandi arðinn og vextina vil ég hins vegar að sjálfsögðu reyna að halda slíkum greiðslum frá samfélaginu og niður í vasa fjárfesta í algeru lágmarki. Ég lít á það sem hlutverk mitt sem hagsmunagæslumanns fyrir samfélagið hér innan veggja þingsins.