Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:23:22 (6025)

2004-04-01 15:23:22# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., GHj
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:23]

Guðjón Hjörleifsson:

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hæstv. félmrh. leggur fram er að mestu leyti mjög gott. Ég skrifaði undir nál. með fyrirvara þar sem ég var ósáttur við 4. gr. frv., en þar stendur, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.``

Starfræksla vatnsveitu utan þéttbýlis er ekki skylduverkefni sveitarfélaga. Þetta skylduverkefni tekur því aðeins til hluta íbúanna. Sveitarfélög hafa samkvæmt þessu frv. einkaleyfi til þess að reka vatnsveitu og selja vatn. Þessar skyldur sveitarfélaganna má eingöngu fela stofnun eða fyrirtækjum sem að meiri hluta eru í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga.

Hvað er að gerast t.d. hjá Hitaveitu Suðurnesja? Hún hefur verið að kaupa orkufyrirtæki þar með talið vatnsveitur sveitarfélaga og því koma viðkomandi sveitarfélög ekkert að rekstri vatnsveitnanna en eiga hlutabréf í Hitaveitu Suðurnesja. Hitaveitan er þó ábyrg fyrir vatnsveitu viðkomandi sveitarfélags þó svo að sveitarfélagið selji hlutabréf sín í Hitaveitu Suðurnesja.

Hvað gerðist ef Reykjanesbær og Grindavík seldu hlutabréf sín í Hitaveitu Suðurnesja? Þau eiga rúm 49% í Hitaveitu Suðurnesja. Önnur sveitarfélög, Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar, Sandgerði, Garður og Vogar og ríkissjóður geta ekki selt hlutabréf sín nema opinberum aðilum. Með öðrum orðum: Þau geta ekki selt eignir sínar til þess að greiða niður skuldir. Ég hefði viljað sjá heimildarákvæði í 4. gr. um að vatnsveita geti verið í eigu annarra með sömu skyldum og um væri að ræða ábyrgð sveitarfélags. Það er kannski ekki spennandi fjárfesting að kaupa slíkt fyrirtæki, sérstaklega þegar ekki næst samstaða um heimild til að njóta arðsemi af rekstrinum. Það er ekki einu sinni heimild til að njóta arðs með hagræðingu án þess að gjaldskrá hækki. Þetta er ekki hvetjandi fyrir fjárfesta eða rekstraraðila.

Ef arður væri af slíkum rekstri væri hægt að nýta hann í niðurgreiðslu á annarri gjaldskrá hjá þeim fyrirtækjum sem reka samhliða rafveitu og hitaveitu. Það var af þeim ástæðum sem ég skrifaði undir með fyrirvara og ég hefði viljað sjá 4. gr. gefa sveitarfélögunum meira svigrúm en um getur í greininni, en það náði ekki fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég undrast mjög þessa breytingartillögu. Hér er verið að koma í veg fyrir að sveitarfélög eða opinberir aðilar geti selt hlutabréf sín í orkufyrirtækjum til þess að greiða niður skuldir eða ráðstafa andvirði hlutabréfa þeirra í orkufyrirtækjum í önnur mikilvæg verkefni. Sérstaklega kemur mér á óvart hv. þm. Helgi Hjörvar, sem flutti breytingartillögu ásamt samflokksmönnum sínum við afgreiðslu á fjárlagafrv. um að selja hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja og ráðstafa andvirði þess í atvinnuuppbyggingu á Reykjanesi. Í þeirri breytingartillögu er verið að koma í veg fyrir að slík sala fari fram, nema þá til sveitarfélaga sem yfirleitt hafa ekki burði í slíkar fjárfestingar. Það verður gaman að sjá hvernig samflokksmenn Helga í fjárln. greiða þeirri tillögu atkvæði.

Ef tillaga þessi verður samþykkt gerum við að engu þriggja ára áætlanir sveitarfélaga sem hafa hug á því að selja eignir, sem eru m.a. hlutabréf í orkufyrirtækjum, og komum í veg fyrir að þau geti greitt niður skuldir. Við sem erum í félmn., sem fer með málefni sveitarfélaga, höfum áhyggjur af fjárhagsstöðu og skuldum sveitarfélaga og svo koma fulltrúar Samf. í félmn. með breytingartillögu sem útilokar að sveitarfélög geti létt á skuldum sínum með sölu hlutabréfa í orkufyrirtækjum sem jafnframt eru með rekstur á vatnsveitum.

(Forseti (ÞBack): Ég vil áminna hv. þm. um að ávarpa þingmenn með viðeigandi hætti.)