Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:27:02 (6026)

2004-04-01 15:27:02# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Um málið sem við nú ræðum, þótt orðið sé mikið breytt frá því sem var, fóru fram miklar umræður á 128. löggjafarþingi. Í þeim drögum sem við ræddum þá var fyrirhugað að selja mætti vatnsveitur til einkafyrirtækja og einkavæða rekstur þeirra án þess að sveitarfélögin hefðu beina aðkomu að. Um þetta urðu miklar deilur eins og menn muna sem fylgdust með þeirri umræðu og við höfðum margir, m.a. sá sem hér stendur, mikinn fyrirvara við að fara þá leið og töldum að þar væri verið að stíga skref í átt til einkavæðingar sem ekki teldist eðlileg og töldum að ekki væri rétt að stíga skrefið með þeim hætti sem lagt var upp með á 128. þingi.

Nú hefur málið fengið mikla umfjöllun og er að mörgu leyti komið í mun betri búning en áður var þannig að ég sé ekki annað en að meiri hluta til megi fallast á efni þessa frv. Ég er hins vegar orðinn þess sinnis, hæstv. forseti, eftir að hafa séð hin einstöku einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar, framkvæmd þeirra og afleiðingar, að það sé óhætt að fara varlega í þessum skrefum og við hefðum kannski betur farið varlega í ýmsum einkavæðingarskrefum sem við höfum stigið í þjóðfélaginu á undanförnum árum og séð til þess að breytingarnar gerðust hægar, m.a. með dreifðri eignaraðild að bönkum, með takmörkunarheimildum á framsali einkavæðingar þegar bankarnir áttu í hlut og að breytingarnar hefðu gerst hægar en þær gerðu. Hér hafa orðið miklar sviptingar í sambandi við einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Niðurstaða mín er því sú að í þeim búningi sem málið er nú sé hægt að styðja það eins og það liggur fyrir, en ég tek samt undir og styð breytingartillögu sem Samf. hefur lagt hér fram, en að við flýtum okkur hægt í því að færa eignarböndin of mikið frá sveitarfélögum og að vatnsveiturnar geti verið í meirihlutaeigu einhverra annarra. Ég tel að við eigum að sjá til þess að við förum þá vegferð mjög gætilega.

[15:30]

Þetta segi ég m.a. vegna þess sem ég áður sagði að ég held að það sé ýmislegt að varast í því einkavæðingarferli sem við höfum farið. Núna stendur til að fara að selja Símann og ég ætla að segja það við þessa umræðu að ég er algjörlega andvígur því að dreifikerfi Símans sé selt. Það kann vel að vera að hægt sé að selja Símann sem fyrirtæki en ég tel að dreifikerfið eigi að vera eign ríkisins og ríkið eigi að sjá til þess að fyrirtæki hafi aðgang að dreifikerfinu. Eins og málið er í pottinn búið lýsi ég því yfir að ég mun styðja brtt. sem hefur verið lögð fram en tel að frv. sé komið í mun betri búning en það var á 128. löggjafarþingi og vona að það skref sem við erum núna að stíga sé ekki meira en það að við getum öll verið sátt við það í framtíðinni og alveg óþarfi að flýta sér meira en hér er lagt upp með.