Vatnsveitur sveitarfélaga

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:31:20 (6027)

2004-04-01 15:31:20# 130. lþ. 93.12 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:31]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þetta frv. til laga um vatnsveitur sveitarfélaga sem er að koma til 2. umr. hefur verið til meðhöndlunar í þinginu áður, m.a. á síðasta þingi. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir var hart tekist á um frv. þá og fyrir sérstakan atbeina þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var afgreiðslu frv. frestað fyrir ári síðan. Það voru svo hörð einkavæðingarákvæði í því frv. að að mati þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs var fullkomlega óásættanlegt að afgreiða það þannig. Það gleðilega við það er að nú er eins og það sé vakning, bæði í þinginu og hjá öflugum samtökum og einstaklingum í þjóðfélaginu um að kannski sé þessi einkavæðing á almannaþjónustunni sem hefur verið í gangi á undanförnum árum ekki að leiða til góðs. Þær umsagnir sem hefur verið vitnað í um frv., frá stórum samtökum eins og Alþýðusambandi Íslands og frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja lúta að því að aðgengi að vatni sé hluti af grundvallarmannréttindum og að almannaþjónusta og almannaheill snúi að því að allir geti haft aðgang að vatni, það sé ekki ofurselt einkaframtaki eða einkaaðilum sem geta haft rekstur á því fyrst og fremst til eigin gróða.

Það er því mjög ánægjulegt þó svo að enn þá sé í frv. of mikill einkavæðingarþefur, einkavæðingarbragur, sem við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hefðum gjarnan viljað fá enn þá betur út, er einkavæðingaráráttan sem hefur tröllriðið núverandi ríkisstjórn á undanförnum árum sem betur fer á nokkru undanhaldi. Það er líka ánægjulegt hvað þessi stóru samtök hafa skilað afdráttarlausum umsögnum um andstöðu sína við hlutafélagavæðingu og markaðsvæðingu almannaþjónustunnar eins og neysluvatnsins.

Í því samhengi má nefna að sama verður upp á teningnum núna með afgreiðslu raforkulaganna, um dreifikerfi raforkunnar, sem er líka árátta. Innan skamms mun liggja fyrir þinginu frv. um hlutafélagavæðingu og heimild til sölu á dreifikerfi raforku. Og sömu samtök hafa einmitt lagst alfarið gegn einkavæðingunni á raforkukerfinu.

Það er von mín að sú umræða sem hefur átt sér stað um vatnsveitur sveitarfélaga og sú árétting að þetta séu grundvallarmannréttindi, grunnalmannaþjónusta, og eigi þess vegna að vera á samfélagslegri ábyrgð, að sú umræða komi einnig mjög sterk í umræðuna um raforkudreifinguna þannig að einnig þar hugsi ríkisstjórnin sig um áður en hún keyrir áfram þau einkavæðingarákvæði og þau markaðsvæðingarákvæði sem eru í frv. um dreifingu á raforku sem liggur fyrir þinginu.

Frú forseti. Ég kom hér upp til þess að árétta sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs gagnvart þeirri almannaþjónustu sem á að vera á almannaábyrgð, á að vera á ábyrgð sveitarfélaganna og ríkisins. Það á ekki að einkavæða vatnsveiturnar, það á ekki að markaðsvæða kalda vatnið okkar og vonandi drögum við líka þann lærdóm af þessari umræðu að einkavæðingarákvæðin í nýju frv. um flutningskerfi raforku verði líka að endurskoða því einkavæðingin á ekkert frekar heima í dreifikerfi raforku. Kannski væri rétt að huga að því að stjórnsýsla dreifikerfis raforku færi frá iðnrn. og heyrði undir félmrn. til að undirstrika að þetta er almannaþjónusta. Dreifing raforku er hluti af almannaþjónustunni og ætti þess vegna kannski frekar að heyra undir félmrn., hliðstætt við frv. til laga um vatnsveitur og vatnsveiturnar heyra undir almannaþjónustuna.

Frú forseti. Ég vona að við séum hægt og bítandi að vinna á einkavæðingunni í almannaþjónustunni og meira að segja harðsvíruðustu einkavæðingarsinnar í Framsfl. fari líka að sjá að sér og trappi niður einkavæðinguna í almannaþjónustunni.