Vátryggingarsamningar

Fimmtudaginn 01. apríl 2004, kl. 15:54:49 (6031)

2004-04-01 15:54:49# 130. lþ. 93.13 fundur 204. mál: #A vátryggingarsamningar# (heildarlög) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 93. fundur, 130. lþ.

[15:54]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Eins og fram kom hjá formanni efh.- og viðskn. skrifum við, þingmenn Samf. í efh.- og viðskn., undir nál. með fyrirvara. Eins og þar kemur fram lýtur fyrirvari okkar fyrst og fremst að takmörkun á upplýsingagjöf, fyrst og fremst 82. gr. frumvarpsins.

Í þessu sambandi vil ég vitna til tveggja umsagna sem okkur bárust um 82. gr., annars vegar frá Persónuvernd og hins vegar frá Læknafélagi Íslands, sem við tökum undir að öllu leyti. Í umsögn Persónuverndar segir, með leyfi forseta:

,,Í 2. mgr. 82. gr. er kveðið á um að vátryggingafélagi sé óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóma. Félaginu sé einnig óheimilt að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé að fá slíkar upplýsingar. Persónuvernd fagnar þessu ákvæði en gerir þó athugasemd við niðurlag þess, þ.e. að þetta bann gildi þó ekki um athugun á núverandi eða fyrra heilsufari mannsins eða annarra einstaklinga. Í athugasemdum við ákvæðið kemur fram að samkvæmt þessari undanþágu má athuga heilsufar skyldmenna til að meta tilefni til þess að rannsaka fyrra eða núverandi heilsufar þess sem óskar vátryggingar. Ekki sé hins vegar heimilt að athuga heilsufar skyldmenna til að kanna arfgenga þætti. Persónuvernd telur ekki unnt að aðgreina þetta tvennt. Í athugasemdunum segir raunar að ljóst sé að munurinn á þessu tvennu sé ekki glöggur. Aftur á móti telur Persónuvernd að athugun á heilsufari skyldmenna til að meta tilefni til að rannsaka heilsufar vátryggðs geti eðli málsins samkvæmt ekki falið í sér annað en könnun á því hvort telja megi hættu á arfgengum sjúkdómi og hvort sérstök könnun á heilsufari vátryggðs sé þar af leiðandi nauðsynleg. Leggur Persónuvernd því til að orðin ,,eða annarra einstaklinga`` aftast í 2. mgr. 82. gr. frv. verði felld brott.``

Við tökum einmitt upp þessa tillögu, að fella brott orðin ,,eða annarra einstaklinga`` og höfum sett fram slíka brtt. Því miður náðist ekki að dreifa henni fyrir þessa umræðu eða láta samþykkja um hana afbrigði til að hún mætti verða tekin fyrir og greidd um hana atkvæði við 2. umr. þannig að sú brtt. mun lögð fram við 3. umr. og verður þá tekin til atkvæða. Við teljum að með því að taka þessi orð út ,,eða annarra einstaklinga`` sé með afgerandi hætti komið í veg fyrir að heimilt sé að kanna heilsufar skyldmenna viðkomandi sem leitar eftir tryggingum. Við teljum þetta afar mikilvægt.

Ég vil því næst benda á, hæstv. forseti, að Læknafélag Íslands tekur líka undir þetta. Í umsögn þess segir, með leyfi forseta:

,,Félagið telur að of langt sé gengið með lokamálslið 1. mgr. 82. gr. Vandasamt getur verið að skera úr um það hvað séu sérstök atriði sem vátryggingartaki má vita að hafi verulega þýðingu fyrir mat tryggingafélags á áhættu. Á það ekki síst við á tímum þar sem læknavísindunum fleygir fram og þeim atriðum fjölgar hratt sem hægt er að halda fram að vátryggingartaki hefði mátt vita um. Er full ástæða til að óttast að tryggingafélög mundu nýta sér lagaákvæði sem þetta til að losna við greiðslu bóta.``

Virðulegi forseti. Ég tel nægilegt að vitna til þessa sem rökstuðnings fyrir brtt. okkar. Í annan stað vil ég leggja áherslu á það sem fram kemur í nál., að við reyndum eins og hægt var að nálgast það hvort ákvæði í frv. gætu gefið tryggingafélögunum tilefni til að hækka iðgjaldagreiðslur. Stuðningur minn byggist á því að ég treysti því að ákvæði þessa frv. leiði ekki til þess að tryggingafélögin nýti þau til að hækka iðgjaldagreiðslur. Er að nokkru leyti tekið á því í nál. efh.- og viðskn.