Aukið eftirlit með ferðamönnum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:04:55 (6039)

2004-04-05 15:04:55# 130. lþ. 94.91 fundur 455#B aukið eftirlit með ferðamönnum# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins til að vekja athygli þingheims á fréttum sem voru í Ríkisútvarpinu um helgina þess efnis að Bandaríki Norður-Ameríku hygðust hefja stóraukið eftirlit með fólki frá 27 þjóðlöndum sem þangað kæmu sem ferðamenn. Eftirlitið á að felast í því að tekin verði fingraför og teknar andlitsmyndir af ferðamönnum við komuna til landsins og mun þetta hefjast 30. september nk. Einnig hefur verið frá því sagt að Evrópusambandið íhugi að gera svipaðar kröfur á Schengen-svæðinu.

Mig langar, hæstv. forseti, að spyrja hæstv. utanrrh. hver viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu eða verði við þessu, hvort einhverjar upplýsingar hafi hingað borist um þetta fyrir fram og hvernig viðbrögðin verði í framhaldi af því. Það liggur ljóst fyrir, eins og kom fram í fréttum í morgun og í máli framkvæmdastjóra Persónuverndar, að það er ástæða til að hafa áhyggjur af því hver hefur slíkar persónuupplýsingar með höndum, hvernig með þær er farið og hvort t.d. megi samkvæmt bandarískum lögum, þó að það mætti kannski ekki hér eða annars staðar í Evrópu, samkeyra svona upplýsingar við aðra gagnabanka. Því þætti mér vænt um, hæstv. forseti, að fá um það svör hér hvernig íslensk stjórnvöld hyggist bregðast við þessu og líka í framhaldi af því hvort stjórnvöld sjái sér fært að verða við þeim kröfum að allar slíkar upplýsingar verði komnar inn í vegabréf landsmanna eigi síðar en haustið 2006.