Aukið eftirlit með ferðamönnum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:08:50 (6041)

2004-04-05 15:08:50# 130. lþ. 94.91 fundur 455#B aukið eftirlit með ferðamönnum# (aths. um störf þingsins), BH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt þegar söfnun og meðferð persónuupplýsinga er annars vegar að fyllstu varkárni sé gætt í slíkum málum og við þær breytingar sem hér er verið að ræða um. Ég held að við eigum, virðulegi forseti, með tilliti til friðhelgi einkalífs og persónuverndar að vera talsmenn þess að mjög varlega sé stigið til jarðar í þessum efnum.

Við vitum að markmiðin með setningu slíkra reglna eru alltaf göfug, og þau eru það eflaust núna. Það er bent á öryggishagsmuni og það er bent á ógnina sem heiminum stafar af hryðjuverkum en þannig hefur það líka alltaf verið, markmiðin hafa verið göfug þótt því miður séu dæmin fjölmörg úr mannkynssögunni um það að slíkar upplýsingar hafi verið misnotaðar í miður góðum tilgangi. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að rödd íslenskra stjórnvalda á alþjóðlegum vettvangi og í samræðum við önnur ríki um slík mál sé rödd varfærni og þess að varlega sé farið í sakirnar.

Það hefur líka verið bent á það af hálfu Persónuverndar að svona reglur geti falið í sér ákveðið ósamræmi, t.d. á milli löggjafar annars vegar í Bandaríkjunum og hins vegar Evrópu, um það hvernig fara skuli með slíkar upplýsingar. Þetta getur verið áhyggjuefni og hugsanlega er ástæða til að gerðir verði alþjóðlegir samningar um þessi mál. Ég held að við munum hljóta að taka vel í slíka viðleitni en látum það vera skilaboð íslenskra stjórnvalda að varlega eigi að fara í setningu slíkra reglna, jafnvel þótt markmiðin séu alltaf góð og göfug.