Aukið eftirlit með ferðamönnum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:12:53 (6043)

2004-04-05 15:12:53# 130. lþ. 94.91 fundur 455#B aukið eftirlit með ferðamönnum# (aths. um störf þingsins), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. svörin. Hæstv. ráðherra orðaði það sem svo að við yrðum að sætta okkur við að hingað værum við komin, sætta okkur við orðinn hlut, mætti segja. Mér þykir það illt vegna þess að ég sé ekki í fljótu bragði rökin fyrir aðgerðum sem þessum. Ég skil hins vegar mjög vel að utanrrh. og Alþingi Íslendinga breyti ekki vilja bandarískra stjórnvalda í þessum efnum. Hins vegar hljóta íslensk stjórnvöld að kanna mjög rækilega til hvers manngreiniupplýsingar af þessu tagi, svokölluð lífkenni, eru notuð. Það verður að liggja fyrir í samskiptum þessara tveggja landa hvernig eigi að nota upplýsingarnar, hvort og þá hvernig eigi að keyra þær saman við aðrar upplýsingar, aðra gagnabanka, með hvaða hætti og með hvaða lagaheimildum bandarísk stjórnvöld hyggist nota þær.

Ég hygg að það sé orðið tímabært að ríki heims komi sér upp einhvers konar samskiptareglum, samningi eða sáttmála, um það hvernig svona upplýsingar eru notaðar, og þá líka hér á landi við komu fólks í Leifsstöð, ef þess gerist þörf. Ef eitt er víst er það það að svona upplýsingar má hæglega misnota, ég tala nú ekki um þegar þær eru komnar saman í stóra gagnabanka.