Vatnsveitur sveitarfélaga

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:36:56 (6046)

2004-04-05 15:36:56# 130. lþ. 94.11 fundur 576. mál: #A vatnsveitur sveitarfélaga# (heildarlög) frv. 32/2004, SJS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Steingrímur J. Sigfússon (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfum lagst hart gegn öllum hugmyndum um markaðs- og einkavæðingu neysluvatns, þ.e. uppbyggingar og reksturs kaldavatnsveitna. Við beittum okkur gegn afgreiðslu frv. af því tagi hér sl. vor eða nær væri að segja á útmánuðum sl. vetrar en þá var frv. svipaðs eðlis til umfjöllunar á þingi.

Það var síðan lagt fram aftur á þessu þingi, þá nokkuð breytt, og hafa orðið talsverðar framfarir í þeim efnum. Frv. er nú mun betra en það sem við beittum okkur fyrir að væri stöðvað hér á þingi í fyrra. Sérstaklega munar þar um að nú er horfið frá hugmyndum um að áskilja einkaaðilum sem tækju að sér rekstur vatnsveitna fyrir hönd sveitarfélaga umtalsverðar arðgreiðslur í sinn hlut. Eftir sem áður er gert ráð fyrir framsali á einkarétti sveitarfélaga til handa fyrirtækjum eða félögum sem geta verið allt að 49,9% í eigu einkaaðila eða annarra en ríkis og sveitarfélaga.

Að þessu leyti erum við ósátt við efni frv. og hefðum þar að auki viljað taka á málefnum neysluvatns heildstætt og taka þar mið m.a. af stefnumótun á vettvangi SÞ þar sem hollt og nægjanlegt neysluvatn er skilgreint sem frumþörf og ein af sameiginlegum auðlindum manna. Að því leyti er enn verk að vinna hvað varðar viðhorf manna á Íslandi og mönnum er tamt hér að líta svo á sem vatn sé ætíð óþrjótandi og við höndina. Svo er ekki alls staðar í heiminum eins og kunnugt er.

Þá ágalla á frv. sem við gerum enn miklar athugasemdir við er að finna í 2. og 4. gr. frv. þar sem heimilað er framsal á skyldum og rétti sveitarfélaganna til að starfrækja vatnsveitu á sínu svæði. Við munum því í samræmi við þetta, herra forseti, greiða atkvæði með efni þessa frv. að slepptu efni 2. og 4. gr. sem við erum andvíg.