Vátryggingarsamningar

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:46:31 (6047)

2004-04-05 15:46:31# 130. lþ. 94.12 fundur 204. mál: #A vátryggingarsamningar# (heildarlög) frv. 30/2004, JóhS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Fulltrúar Samf. hafa gert athugasemdir við 82. gr. sem fjallar um takmarkanir og upplýsingagjöf sjúklinga vegna áhættu en gagnrýni okkar er í samræmi við umsögn Persónuverndar og Læknafélagsins. Við styðjum 1. mgr. þessarar greinar og 2. mgr. um að vátryggingafélagi sé óheimilt fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar um erfðaeiginleika manns og áhættu á því að hann þrói með sér eða fái sjúkdóm, sömuleiðis að óheimilt sé að óska eftir rannsóknum sem teljast nauðsynlegar til þess að kostur sé að fá slíkar upplýsingar. Aftur á móti greiðum við atkvæði gegn niðurlagi 2. mgr. sem kveður á um að athuga megi heilsufar skyldmenna til að meta tilefni til að rannsaka fyrra eða núverandi heilsufar þeirra sem óska vátryggingar. Læknafélagið segir m.a. að full ástæða sé til að óttast að tryggingafélag mundi nýta sér þetta lagaákvæði til að losna við greiðslu bóta. Ég óska því eftir að sá málsliður gangi sérstaklega til atkvæða.