Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:53:37 (6048)

2004-04-05 15:53:37# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er kannski rétt að gera andartakshlé á fundi á meðan þeir forða sér úr salnum sem ekki eru það uppteknir af atvinnuástandinu á Djúpavogi eða horfum þar og í öðrum sambærilega settum sjávarbyggðum að þeir ákveði að ráðstafa tíma sínum öðruvísi en vera í þingsalnum.

Óvissa hangir yfir atvinnumálum á Djúpavogi og hefur gert undanfarnar vikur og ástæðan er gamalkunn. Verið er að selja þær veiðiheimildir sem hafa tryggt umsvif í veiðum og vinnslu uppsjávarfisks á staðnum undanfarin ár. Heimamenn fá enga rönd við reist í kerfi fullkomlega frjáls framsals veiðiheimilda án nokkurrar tengingar eða trygginga fyrir byggðirnar. Forsaga málsins er sú að Ker hf., sem ýmsir kannast betur við undir nafninu Olíufélagið Esso, sem sagt Ker hf., sem fyrir skömmu eignaðist alfarið Útgerðarfélagið Festi og þar með dótturfélagið Gautavík sem á og rekur fiskimjölsverksmiðjuna á Djúpavogi, virðist hafa ákveðið að selja utanaðkomandi aðilum fyrirtækið ásamt eða kannski öllu heldur fyrst og síðast með öllum veiðiheimildum. Hafa verið nafngreind í þessu sambandi sem kaupendur Skinney -- Þinganes á Hornafirði, Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, Grandi hf. og jafnvel fleiri aðilar. Með þessu hverfur af staðnum sú tenging eignarhalds á veiðiheimildum og vinnslu í landi sem hefur verið kjölfestan í starfseminni og forsenda fjárfestinga og uppbyggingar undanfarin ár. Þetta gerist þrátt fyrir samkomulag milli fyrri eigenda Festar og Kers hf., þegar síðarnefnda fyrirtækið eignaðist helming í fyrirtækinu fyrir tæpum tveimur árum, um að treysta veiðiheimildirnar í sessi á Djúpavogi.

Það er óhætt að segja að það hafi gengið nokkuð vel á Djúpavogi undanfarin ár og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því að staðurinn hefur verið að byggjast upp. Atvinnuástand hefur verið nokkuð gott og talsverð umsvif á staðnum. Ríki, sveitarfélag og fyrirtæki hafa lagt í talsverðar fjárfestingar til að bæta aðstæður til löndunar og vinnslu sjávarafla. Þannig hafa verið lagðar vel á annað hundrað milljónir kr. í hafnargerð og löndunaraðstöðu samhliða uppbyggingu fiskimjölsverksmiðjunnar og fyrirhuguð var lenging viðlegukants í gömlu höfninni næsta sumar vegna mikillar umferðar síldarbáta. Fyrirtækið Búlandstindur í eigu Vísismanna hefur fjárfest umtalsvert í vinnslubúnaði fyrir uppsjávarfisk og gæti orðið að afskrifa hundruð milljóna kr. fjárfestingu ef grundvöllur slíkrar vinnslu brestur á staðnum. Í allt eru í húfi 40--50 störf eða allt að 35 ársverk ef starfsemin leggst af. Ríki og sveitarfélag hafa lagt mikla fjármuni í hafnaraðstöðu og fleiri mannvirki sem verða þá vannýtt. Fyrirtæki hafa fjárfest og þau og sveitarfélagið verða fyrir miklu tekjutapi. Mest yrði þó auðvitað áfallið fyrir íbúana og byggðarlagið sem slíkt.

Þannig er nú staðan að ákvörðun núverandi, utanaðkomandi eigenda undirstöðufyrirtækja staðarins í veiðum og vinnslu uppsjávarfisks, um að selja fyrirtækin en þó fyrst og fremst veiðiheimildirnar sem á að skipta niður á nokkra aðila, kippir í einu vetfangi grundvellinum undan atvinnustarfseminni og þeim fjárfestingum sem lagt hefur verið í að undanförnu. Hlýtur að vera nokkurt umhugsunarefni fyrir ríki og sveitarfélög almennt séð hvernig þessir hlutir geta gengið fyrir sig. Aðstaða heimamanna eða öllu heldur aðstöðu- eða aðkomuleysi að málinu er tilfinnanlegt. Þeir hafa enga aðild eða aðkomu átt að viðræðum undangenginna vikna um sundurlimun og sölu fyrirtækja og veiðiheimilda sem eru burðarás byggðarlagsins í atvinnulegu tilliti. Reyndar fékk sveitarstjórn Djúpavogs loks í morgun formlegt svar við málaleitan sinni til Kers hf. um að fá að koma að viðræðum um fyrirhugaðar eignabreytingar þegar allt er sagt um garð gengið. Hvort það er tilviljun að það svar barst sama dag og þessi umræða fer fram skal ósagt látið.

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a.eftirfarandi um stöðu sjávarbyggða:

,,Leitast verður við að styrkja hagsmuni sjávarbyggða, til dæmis með því að kanna kosti þess að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga og lögaðila, að nýta tekjur af veiðigjaldi til uppbyggingar þeirra, takmarka framsal aflaheimilda innan fiskveiðiársins, auka byggðakvóta og taka upp ívilnun fyrir dagróðrabáta með línu.``

Ég vil því spyrja hæstv. iðn.- og viðskrh. sem fer með byggðamál --- það fer vel á því af þessu tilefni að spyrja hæstv. ráðherra úr Framsfl. því þeim framsóknarmönnum er málið ákaflega skylt af ýmsum ástæðum: Hvað líður efndum á einhverjum af þeim aðgerðum sem boðaðar eru í stjórnarsáttmálanum einmitt til að taka á vanda af því tagi sem byggðin á Djúpavogi nú stendur frammi fyrir?

Eru uppi áform um að styrkja forkaupsréttarákvæði sveitarfélaga að veiðiheimildum þó að vísast yrði það of seint í þessu tilviki?

Stendur til að auka byggðakvóta, t.d. taka upp einhverja byggðakvóta í uppsjávartegundum?

Hvað hefur ríkisstjórn Íslands að segja við byggðarlög eins og Djúpavog nú eða Hrísey þar sem verið var að segja upp fólki eða Raufarhöfn eða fjölmörg önnur minni og meðalstór sjávarbyggðarlög sem hafa staðið eða eiga eftir að standa í sömu sporum og Djúpivogur gerir nú að óbreyttu kerfi?