Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 15:59:13 (6049)

2004-04-05 15:59:13# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það hefur vissulega verið óvissuástand í atvinnumálum á Djúpavogi að undanförnu en vonir mínar standa til þess að farsæl lausn finnist á málum þar. Sú lausn er ekki fundin á þessari stundu en viðræður eiga sér stað á milli aðila. Það er erfitt að draga ályktanir um stöðu sjávarbyggða landsins út frá því sem er að gerast á Djúpavogi. Við vitum þó að fleiri sjávarbyggðir eiga í erfiðleikum af mismunandi ástæðum og þetta ástand er ekki bundið við einn landshluta frekar en annan. Hinu má þó ekki gleyma að í öllum landshlutum eru byggðarlög sem hafa styrkst.

Ríkisstjórnin gerir sér fyllilega grein fyrir því að óvissa getur komið upp í sjávarbyggðum landsins. Ríkisstjórnin hefur og mun áfram leitast við að styrkja stöðu þeirra. Mig langar til að nefna ýmsar aðgerðir sem staðið hefur verið að og miða að þessu markmiði beint eða óbeint.

[16:00]

Snemma á síðasta ári fól ríkisstjórnin Byggðastofnun að kaupa hlutafé fyrir 350 millj. kr. í félögum sem væru til þess fallin að efla nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Keyptir voru hlutir í 23 félögum og að verulegum hluta fyrirtækja í sjávarbyggðum. Það má nefna fyrirtæki í úrvinnslu sjávarafurða og fyrirtæki sem framleiða vörur fyrir sjávarútveginn. Það er ljóst að mikil nýsköpun á eftir að eiga sér stað í sjávarútvegi á næstu árum, bæði að því er varðar nýtingu áður vannýttra auðlinda og ekki síður úrvinnslu afurða.

Ein þeirra aðgerða sem ráðist hefur verið í á grundvelli byggðaáætlunar snýr einmitt beint að þessu, þ.e. auknu verðmæti sjávarfangs og líftækni. Markmiðið er að auka verðmætasköpun og fjölbreytni í sjávarútvegi og stuðla þannig að sterkari stöðu til sjávar og sveita.

Sjútvrh. hefur sett á stofn sérstakan sjóð, AVS-sjóðinn, sem veitir styrki til rannsóknarverkefna sem auka verðmæti sjávarfangs og unnið hefur verið að því að kanna möguleika á uppbyggingu öndvegisseturs í auðlindalíftækni á Akureyri til að renna styrkari stoðum undir líftækniiðnaðinn á Íslandi. Það mundi ekki síst koma sjávarbyggðum til góða en sumar þeirra eru þegar farnar að hasla sér völl innan iðnaðarins.

Byggðastofnun vinnur nú að því að veita styrki til atvinnuskapandi stuðningsverkefna en ríkisstjórnin fól stofnuninni að úthluta 150 millj. kr. í þessu skyni. Þegar hafa verið teknar ákvarðanir um þátttöku í verkefnum sem ætla má að séu vel til þess fallin að efla grunngerð þekkingar og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs, fiskvinnslu og annarra greina sem munu gagnast sjávarbyggðum.

Ég vil minna á að línuívilnun var samþykkt á yfirstandandi þingi, eins og boðað var í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og veiðigjald verður lagt á frá og með 1. september nk. en ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að það eigi að nýta tekjur af veiðigjaldinu til uppbyggingar sjávarbyggða landsins.

Víða um landið hefur tekist vel til að því er varðar úthlutun byggðakvóta og reynslan sýnir að hann getur, ef vel er á málum haldið, orðið til þess að styrkja verulega búsetu í sveitarfélögum sem mjög eru háð sjávarútvegi. Á vegum sjútvrh. er nú unnið að skoðun á því hvernig þessum málum verði best fyrir komið framvegis. Niðurstöður eru væntanlegar á vormánuðum.

Ég vil að lokum geta þess að Byggðastofnun hefur frá sl. sumri unnið að því að meta stöðu sjávarbyggða í landinu. Sveitarfélögunum hafa verið sendir spurningalistar og staðirnir í kjölfarið heimsóttir til að fá gleggri mynd af ástandinu. Niðurstaða matsins mun væntanlega liggja fyrir snemmsumars og mun gera stjórnvöld betur í stakk búin til að greina og taka á þeim málum sem upp kunna að koma.

Að allra síðustu vil ég segja að málefni sjávarbyggða verða ekki leyst í eitt skipti fyrir öll. Það er hins vegar mjög mikilvægt að nýta styrkleika byggðanna, eins og gert er á Austurlandi, með uppbyggingu stóriðju. Þær framkvæmdir skipta gríðarlega miklu máli fyrir landsfjórðunginn og munu þau áhrif, með bættum samgöngum, ná til Djúpavogs. Í þessu sambandi má einnig nefna fiskeldið sem miklar vonir eru bundnar við að muni skapa mörg störf í framtíðinni á Djúpavogi. Það er hins vegar sárt til þess að vita að hv. málshefjandi skuli hafa barist gegn þessari atvinnuuppbyggingu af öllum mætti.