Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:04:09 (6050)

2004-04-05 16:04:09# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), KLM
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Það málefni sem hér er tekið til umræðu utan dagskrár, málefni og atvinnuástand á Djúpavogi, væri því miður hægt að ræða um miklu fleiri byggðarlög á landsbyggðinni. Það er þetta sem hefur hangið yfir lengi, þ.e. að með einni undirskrift sé hægt að selja í burtu allar veiðiheimildir. Atvinnan er flutt í burt og eftir stendur fólk með verðlitlar eða jafnvel verðlausar eignir eftir slíkan gjörning.

Þannig er þetta með eignayfirfærsluna á almenna markaðnum en þau sveitarfélög og þau landsvæði sem ekki renta sig á þessum almenna hlutabréfamarkaði sitja eftir með sárt ennið.

Það versta við þetta allt saman er að hæstv. ríkisstjórn er ekki með neitt plan B, ef svo má að orði komast, um hvað gera skuli þegar svona er að gerast eins og þarna er. Einu tillögur ríkisstjórnarinnar hingað til hafa verið að skrifa skýrslur. Svo kemur hæstv. byggðamálaráðherra og segir okkur hér rétt einu sinni frá nýsköpunarmiðstöðvum, gott og góðra gjalda vert, öndvegissetri, gott og góðra gjalda vert, og stóriðjunni á Austurlandi, gott og góðra gjalda vert. (Gripið fram í.) En þetta er ekki nóg, hæstv. iðnrh. (Iðnrh.: Ég minntist ekki á nýsköpunarmiðstöðina.)

Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. ræðir hér líka um byggðakvótann sem hún tók þátt í að taka af. Byggðakvóti í núverandi mynd verður lagður af. Hvar eru þau 12 þús. tonn sem 9. gr. fjallar um núna, hvar eru þau? Sá pottur er tómur, það er búið að úthluta því öllu. Ég get nefnt hér ótal mörg önnur byggðarlög, Hrísey og vandamálið á Siglufirði við rækjuverksmiðju og endurreisn hennar þar sem 35 manns störfuðu. Í hverju stendur það núna? Staðan er sú, virðulegi forseti, að enginn banki vill taka viðkomandi fyrirtæki í viðskipti, lífeyrissjóðir fólksins mega ekki og vilja ekki koma nálægt þessu, staða krónunnar veldur erfiðleikum í sjávarútvegsfyrirtækjum og stuðlar að auknum innflutningi.

Herra forseti. Þetta er Ísland í dag.