Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:08:39 (6052)

2004-04-05 16:08:39# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Umræðan um málefni og horfur í atvinnumálum Djúpavogs er þörf og ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka hana upp hér á hinu háa Alþingi.

Enn á ný verðum við vitni að því að það er vélað með nýtingarrétt heillar byggðar á hennar fremstu og mikilvægustu auðlind, auðlind sem ávallt hefur verið forsenda fyrir því að mannlíf þrifist í byggðinni. Lykilfyrirtæki og þar með veiðiréttur byggðarinnar eru seld burtu til hæstbjóðanda og eftir situr fólkið með sárt ennið. Atvinnuhorfur eru mjög dökkar, húseignir verða nánast verðlausar þar sem þær eru illseljanlegar og framtíðin ekki björt.

Ég hygg að engum nema kannski þeim sem eru hvað harðastir í ofstæki sínu til að verja núverandi fiskveiðistjórnarkerfi með frjálsu framsali á kvóta dyljist sú staðreynd að það eru bein og skýr tengsl á milli veiðiheimilda og byggðaþróunar. Sjávarplássin allt umhverfis landið byggja tilveru sína fyrst og fremst á því að hafa rétt til að nýta Íslandsmið með einum eða öðrum hætti. Þetta verður ríkisstjórnin að fara að skilja. Það þýðir ekki endalaust að búa til nýjar skýrslur og þvæla fram og aftur með byggðaáætlanir, nýsköpunarverkefni og hvað þetta nú allt saman heitir og hæstv. byggðamálaráðherra Valgerður Sverrisdóttir er svo dugleg að telja upp í hvert sinn sem málefni landsbyggðarinnar eru til umfjöllunar. Fólk lifir ekki á skýrslum og það lifir ekki á klisjukenndum loforðum stjórnvalda um betri tíð með blóm í haga.

Nei, herra forseti, það sem gildir fyrir fólk í þessum byggðum er að þær haldi nýtingarrétti sínum á fiskimiðunum. Hann á að vera jafnsjálfsagður og rétturinn til að drekka vatn og anda að sér súrefni. Eyrarbakki, Stokkseyri, Þorlákshöfn, Sandgerði, Raufarhöfn, Hrísey og nú Djúpivogur, hvar endar þetta? Það er hægt að nefna ótal byggðir sem farið hafa halloka í núverandi kvótakerfi. Ekki af því að fólk nenni ekki að vinna á þessum stöðum og ekki af því að það vanti fisk í sjónum. Nei, af því að stjórnvöld hafa með aðgerðum sínum skapað skilyrði sem leyfa það að lífsbjörgin sé fjarlægð frá þessum byggðum og fólki síðan bannað að bjarga sér á eigin forsendum. Það er ekki flóknara en svo, herra forseti.