Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:13:07 (6054)

2004-04-05 16:13:07# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), HBl
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:13]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Norðaust. fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá. Það er auðvitað svo að þegar atburðir verða eins og þeir sem nú eru að gerast á Djúpavogi verður fólk sem þar býr órólegt og má benda á ýmislegt í því sambandi sem veldur þeim óróa, eins og þá tregðu að heimamenn og Vísir hafi getað komist að viðræðum við þá sem keyptu Festi um það hvað við tæki. Eins og málin blasa við núna er það bjarta að mjög náið samstarf hefur tekist með Vísi og Samherja sem tekur bæði til markaðsmála og til vinnslu. Þegar ég átti tal við Pétur Pálsson, forstjóra Vísis, í dag fullvissaði hann mig um að þessi fyrirtæki væru að vinna í þeirri stöðu sem nú væri komin upp á Djúpavogi og kanna alla möguleika til að vinnsla gæti haldist þar áfram og atvinnulegur grundvöllur staðarins þannig tryggður. Auðvitað er ljóst að þessi óvæntu tíðindi komu mönnum í opna skjöldu þó að menn vissu að breytingar væru fram undan.

Það er rétt sem hæstv. iðn.- og viðskrh. sagði hér áðan, það er ýmislegt annað bjart að gerast í kringum Djúpavog, eins og það laxeldi sem þar hefur tekist í stórum stíl. Við skulum ekki gera lítið úr þeim möguleikum sem þorpið hefur í ferðaþjónustu. Óvíða er jafnfagurt og í Djúpavogi, gistihús gott og fjölmargir staðir þar og í kring sem eiga sér merka sögu, bæði náttúrufræðilega og sögulega, þannig að ég er ekki hræddur um að framtíð Djúpavogs sé ekki björt. Ég legg samt áherslu á að það er unnið að því að vinna sig út úr þeim vandræðum sem ella blöstu við, m.a. vegna þess að þau útgerðarfyrirtæki sem hafa getið sér gott orð hafa nú tekið sig saman um að vinna úr málum eins og þau liggja fyrir.