Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:19:56 (6057)

2004-04-05 16:19:56# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í dag ræðum við málefni Djúpavogs. Við höfum áður rætt um málefni annarra sjávarbyggða vítt og breitt um landið. Allt ber að sama brunni, að kerfið sem við búum við í stjórn fiskveiða er byggðafjandsamlegt. Íbúar byggðarlaganna hafa ekkert með það að gera sem varðar auðlindir sínar, hafa ekkert um það að segja sem varðar atvinnuöryggi sitt, hafa enga aðkomu við að tryggja örugga búsetu í byggðarlagi sínu sem byggist á nýtingu þessara auðlinda. Þeir eru gersamlega orðnir háðir duttlungum eða aðgerðum stórfyrirtækja þar sem eigendurnir eða þeir sem stjórna búa fjarri þessum byggðum og eru í litlum eða engum tengslum við samfélagið sem þar á allt sitt undir þessum auðlindum.

Við ræddum fyrr í vetur hvernig fjármálafyrirtæki og einstök stórfyrirtæki eru að taka peninga út úr atvinnuveginum. Bara við sölu á Brimi var sjávarútvegurinn skuldsettur um marga milljarða kr. Þar stóðu að verki fyrirtæki sem voru tengd viðskiptablokkum eða valdablokkum Sjálfstfl. á sínum tíma og eru enn en nú ræðum við um vandamál Djúpavogs og þar eru á ferðinni fyrirtæki sem tengjast gömlum valdablokkum Framsfl. Þannig eru þessi uppskipti. Og hæstv. iðnrh. lofar fleiri skýrslum, en ráðherrann hefur bætt einu við: Nú skal senda spurningalista til sveitarfélaganna og spyrja hvað sé að og hvað þau vilji fá og hvað vanti. Já, við erum búin að fá mörg mörg kíló af skýrslum og allt ber að sama brunni. Fiskveiðistjórnarkerfið er galið og gengur á rétt byggðanna. Við viljum tryggja íbúunum sjálfum forgangsrétt til auðlindanna en ekki senda þeim spurningalista eins og hæstv. iðnrh. vill nú gera.