Horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:22:19 (6058)

2004-04-05 16:22:19# 130. lþ. 94.95 fundur 459#B horfur í atvinnu- og byggðamálum á Djúpavogi# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er nokkur óvissa í atvinnumálum á Djúpavogi um þessar mundir, í sveitarfélagi sem hefur á umliðnum árum verið í sókn í atvinnumálum. Ástæður þessarar óvissu má rekja til breytts eignarhalds á einum stærsta vinnustað sveitarfélagsins eins og hér hefur áður verið farið yfir.

Við framsóknarmenn töluðum fyrir aukinni sátt um íslenskan sjávarútveg fyrir síðustu alþingiskosningar og kom ég m.a. að þeim málflutningi. Í þeirri sátt hef ég talað um ríka samfélagsskyldu fyrirtækja fyrir umhverfi sitt. Það er alveg ljóst að ef sátt á að ríkja um íslenskan sjávarútveg þurfa þeir aðilar er að þessari atvinnugrein standa að sýna samfélagslega ábyrgð. Við skulum hafa í huga að kvótinn er sameign þjóðarinnar sem útgerðin hefur afnotarétt af. Verði sá afnotaréttur misnotaður á þann veg að heilu byggðarlögin standi eftir með sárt ennið er erfitt að standa að slíku kerfi.

Ég spyr jafnframt um aðgerðir til stuðnings byggðarlögum er byggja afkomu sína nær eingöngu á sjávarútvegi. Mikil hagræðing hefur átt sér stað innan greinarinnar og þar af leiðandi hefur störfum fækkað í íslenskum sjávarútvegi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að svokölluðu veiðigjaldi skuli m.a. varið til uppbyggingar atvinnumála í byggðarlögum er hafa haft viðurværi sitt af fiskveiðum. Ég kalla því eftir nýsköpun til uppbyggingar þeirra byggðarlaga er hafa orðið illa úti í hagræðingu sjávarútvegsins. Við höfum fjármuni til þeirra verkefna. Það er alveg ljóst. Mál er að linni. Aðgerða er þörf í þessum efnum.