Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 16:31:57 (6063)

2004-04-05 16:31:57# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum.

Frv. þessu er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, sem sett voru í aðdraganda Alþingishátíðar 1930, til að tryggja hinu opinbera full umráð Þingvallalands og þess nágrennis sem þá þótti þurfa og búa því viðeigandi vernd fyrir þeim ,,hermdarverkum`` sem á völlunum þóttu hafa verið unnin og gera þá líkari því sem náttúran hafði við þá skilið. Ekkert slíkt tilefni er sem betur fer til flutnings þess frv. sem hér er mælt fyrir. Ástand garðsins bendir þvert á móti til að gildandi lög hafi að þessu leyti náð markmiðum sínum og vel það. Frá því þau lög voru sett hafa hins vegar öll viðhorf til náttúruverndar gjörbreyst og kröfur um verndun aukist, sérstaklega um verndun Þingvallavatns. Um Þingvallavatn og vatnasvið þess er áformað að flytja sérstakt frv. sem hæstv. umhvrh. hefur í undirbúningi.

Í frv. því sem hér er mælt fyrir er á hinn bóginn fjallað um hið friðhelga land á Þingvöllum og lagt til að það verði nálega sexfaldað að stærð og stækkað úr 40 ferkílómetrum í 237 ferkílómetra. Með því móti fellur innan friðlandsins allt það svæði sem talist hefur til svonefnds áhrifasvæðis Þingvallanefndar í næsta nágrenni þjóðgarðsins en miklar takmarkanir hafa hvort eð er verið á framkvæmdum á því svæði. Allur fjallahringurinn á Þingvallasvæðinu verður þá innan þjóðgarðsmarkanna og segja má að um hann skapist betri náttúruleg heild en nú er.

Á þennan hátt er stigið mikilvægt skref til að tryggja vernd hinnar sérstöku náttúru á svæðinu en jafnframt lagður grunnur að mikilfenglegu útivistarsvæði fyrir landsmenn í næsta nágrenni við stærsta þéttbýlissvæði á landinu. Þetta er í senn meginefni frv. og markmið.

Í samræmi við þetta eru mörk þjóðgarðsins dregin í 1. gr. frv. og þau friðlýst sem helgistaður allra Íslendinga og eign íslensku þjóðarinnar. Til skýringarauka eru sömu mörk dregin upp á landakorti því sem fylgir frv. sem fskj. I.

Inntaki friðunarinnar er síðan lýst í 3. gr. frv. á þann hátt að markmið hennar sé að varðveita ásýnd landsins innan þjóðgarðsins sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari þar. Mikilvægt er að þetta gangi fram í lögunum sjálfum enda hlýtur öll stjórn staðarins að taka mið af þeim markmiðum. Sérstaklega er þó hnykkt á því að almenningur skuli jafnframt eiga þess kost að njóta svæðisins samkvæmt þeim reglum sem um það verða settar. Er það til marks um að friðunin og aðgerðir vegna hennar megi þó ekki ganga svo langt að almenningur hafi ekki að því aðgang.

Í 2. gr. frv. er lagt til að stjórn Þingvalla verði sem fyrr í höndum sérstakrar þriggja manna nefndar, Þingvallanefndar, sem lögbundið er að skipuð skuli alþingismönnum. Það er með öðrum orðum almennt hæfisskilyrði fyrir að geta tekið sæti í nefndinni að eiga jafnframt sæti á Alþingi. Það er vissulega nokkuð einstök skipan í íslenskri stjórnsýslu en um leið til marks um hin nánu og sérstöku tengsl Alþingis við hin forna samkomustað þingsins á Þingvöllum.

Í frv. þessu er þó jafnframt lagt til að skýrar verði kveðið á um tengsl nefndarinnar við hefðbundna stjórnsýslu ríkisins og þar með áréttað að yfirstjórn mála er þjóðgarðinn varða heyri undir forsrn. Það er út af fyrir sig einnig til marks um þá stjórnskipulegu sérstöðu sem Þingvellir njóta innan stjórnkerfisins að þeir skuli heyra undir forsrn., enda heyra þjóðgarðar almennt undir umhvrn. Stjórnarfarslega er það hins vegar ekki breyting frá þeirri skipan sem verið hefur.

Í 4., 5. og 6. gr. frv. eru valdheimildir Þingvallanefndar síðan skilgreindar. Í meginatriðum eru þær tvenns konar. Annars vegar er í 6. gr. gert ráð fyrir að garðinum verði stjórnað með almennum stjórnvaldsfyrirmælum um hvað eina sem snýr að verndun og meðferð þjóðgarðsins, svo sem gestakomu, umferð, veiðum og flutningi hættulegra eða mengandi efna innan hans. Hins vegar er lagt bann við hvers konar jarðraski og mannvirkjagerð innan garðsins á þann hátt að til slíkra framkvæmda þarf í öllum tilvikum leyfi nefndarinnar skv. 4. gr., og henni verður heimilt að binda þau þeim skilyrðum sem hún telur nauðsynleg í þágu markmiða friðunarinnar.

Þá er í 5. gr. frv. að finna tvenns konar heimildir gagnvart eignum sem aðrir en ríkið kunna að eiga innan garðsins. Annars vegar er lagt til að Þingvallanefnd hafi heimild til að semja um kaup á fasteignum, mannvirkjum og nytjaréttindum innan þjóðgarðsins en hins vegar er lagt til að nefndin hafi með samþykki forsrh. heimild til að taka sömu réttindi eignarnámi í þágu friðunar garðsins.

Í 3. mgr. 5. gr. er að finna ákvæði um bótaábyrgð ríkisins vegna fjártjóns af völdum inngrips í þágu friðunarinnar sem er umfram þær takmarkanir sem almennt leiða af náttúrufriðun. Þetta er að vísu sama niðurstaða og leiða mundi af almennum reglum en rétt þykir engu að síður að hnykkja á því í lögum til að greiða fyrir um framkvæmd þeirra.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að víkja sérstaklega að öðrum greinum frv. en vísa til athugasemda sem frv. fylgja.

Þá vill svo vel til, vegna hins sérstaka skipulags sem haft er á stjórn Þingvalla, að nefndarmenn eiga allir sæti á hinu háa Alþingi og því er einnig hægt að eiga við þá orðastað um efni frv., en það var einmitt samið að tilhlutan nefndarinnar.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.