Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 17:00:49 (6066)

2004-04-05 17:00:49# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Rétt er það. Ég hafði haft pata af því að Þingvallavatn væri einstakt að því er varðar þessar bleikjur. Sannarlega væri mér ánægja að því að fara með hæstv. umhvrh. og sýna henni mestu gersemina af þessum fjórum bleikjum, hina mystísku gjábleikju sem hímir í gjánum og elur þar aldur sinn. Nýjustu upplýsingar úr lífríki Íslands eru einmitt þær að þessi gerð bleikju sé einstök vegna þess að hún er ekki bara í gjánum á Þingvöllum, heldur er hún í öllum gjám sem ná í gegnum sprungusveiminn sem liggur um gosbeltið frá Reykjanesi, um suðvesturhornið yfir landið og yfir á norðausturhornið og er algjört ,,raritet``.

Að því er varðar vatnsverndarfrumvarpið fagna ég því að hæstv. ráðherra skuli hafa ráðslagað með Bláskógabyggð. Það var sjálfsagt að gera það. En við sem upphaflega komum að þessu frv. í Þingvallanefnd ráðslöguðum einmitt rækilega um þau mál við þáverandi sveitarstjórn, það var fyrir sameiningu og tilurð Bláskógabyggðar. Þá var fullkomin eining á millum Þingvallanefndar og sveitarstjórnar um allt það sem laut að vatnsvernd, þjóðgarðsnotkun og öðru. Það þarf að liggja alveg ljóst fyrir að Þingvallanefnd hreyfði sig ekki í því máli án þess að fyrir lægi bæði ráðstefna hennar og sveitarstjórnarmanna og algjört samþykki. Það var engin misklíð í þeim efnum.

Á hitt ber svo að líta að þarna er um að ræða mikla auðlind. Þetta er auðlind sem mun skipta stóran hluta þjóðarinnar mjög miklu máli og við verðum að horfa til þess. Við verðum að horfa til hagsmuna hinnar stóru heildar, jafnvel þótt einhverjir kunni að reka hnýflana í þetta sem ég hef auðvitað orðið var við.

Hitt vil ég þakka að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að það sé skammt í að þetta komi hér fram og verði þá væntanlega samþykkt á þessu þingi eða hinu næsta.