Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:31:14 (6083)

2004-04-05 18:31:14# 130. lþ. 94.14 fundur 868. mál: #A þjóðgarðurinn á Þingvöllum# frv. 47/2004, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:31]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna þeirrar spurningar sem kom fram síðast um afmörkunina þá er afmörkunin unnin að frumkvæði Þingvallanefndar sjálfrar og með ráðgjöfum hennar, en það er kunnara en frá þurfi að segja að menn vildu ekki þurfa að teygja sig lengra suður á bóginn og lenda þar með í deilum, landamerkjadeilum og ýmsum öðrum deilum sem uppi voru. Þess vegna þótti skynsamlegt að halda sig við þessi mörk að mati nefndarinnar og við höfum fylgt þeirri leiðsögn sem frá nefndinni hefur komið í forsrn.

Varðandi það að Þingvallanefnd skuli falla með stjórnskipulegum hætti undir forsrn. hefur það verið þannig frá fyrstu tíð. Til að mynda er ég hér með forsetaúrskurð, undirritaðan af Sveini Björnssyni og Stefáni Jóhanni Stefánssyni forsrh., þar sem tekið er fram að undir forsrh. skuli falla Þingvallanefnd og mál varðandi meðferð Þingvalla. Þetta er frá 1947. Hið sama er í stjórnarráðsreglugerð sem byggð er á stjórnarráðslögum sem eru orðin rúmlega 30 ára gömul.

Það sem hins vegar gerist með þessum breytingum er að breytingin er löguð að núverandi skipun stjórnsýslulaga og þar með er komin raunverulega fær málsmeðferð gagnvart úrskurði Þingvallanefndar í samræmi við stjórnsýslulögin sem í landinu gilda.

Vegna þess að hér hefur verið rætt um að breyta nefndarskipuninni má út af fyrir sig segja að það hefði þurft að gera þá breytingu á nefndinni a.m.k. að varamenn væru skipaðir í nefndina til þess að kröfum stjórnsýsluréttarins gæti verið framfylgt þannig að ef hv. nefndarmenn þyrftu að víkja sæti væri hægt að skipa varamenn í þeirra stað. Það hefur til að mynda vantað varamenn í nefndina.

Mér finnst fyllilega koma til álita að nefndin ræði þá beiðni sem fram er komin frá Vinstri grænum og Frjálsl. um að fjölga í nefndinni og gefa fleiri þingflokkum tækifæri til að vera í nefndinni. Mér finnst að það mætti gera með þeim hætti að fjölga í nefndinni án þess að það væri ákveðið að byggt væri á þeirri skipan að hver þingflokkur skuli eiga þar fulltrúa. Það væri hins vegar samkomulagsatriði milli manna að reyna þá skipan að tryggt væri að hver þingflokkur hefði þar fulltrúa. Mér finnst ekki fara illa á því í þessari nefnd.

Hins vegar verð ég að segja að mér þóttu sum ummæli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar falla í öndverða átt, fyrst að lýsa því yfir að hérna eigi að vera sérstök skipan vegna sérstöðu málsins og síðan að falla eiginlega í þann farveg að þetta sé bara orðinn venjulegur þjóðgarður og ætti þess vegna að falla með venjulegum hætti undir þá skipan sem þar er um að ræða. Ef svo er væri ekki ástæða til að gera einhverja breytingu á nefndarskipaninni ef eingöngu er um venjulegan þjóðgarð að ræða.

Ég lít ekki á að svo sé. Ég tel að það hafi reynst afar vel að hafa sérstaka Þingvallanefnd, skipaða af þinginu með þingmönnum sjálfum. Auðvitað hafa þær verið misverkmiklar í gegnum tíðina en sú nefnd sem hefur setið að undanförnu hefur virkilega verið bæði stjórnsöm og afskiptasöm í góðri merkingu orðsins og látið mjög margt gott af sér leiða. Það hefur ekki verið neinn árekstur milli forsrn. og nefndarinnar. Forsrn. er það ljóst að boðvaldið í málinu er ekki hjá forsrn. Þó nefndin falli með stjórnskipulegum hætti undir ráðuneytið er boðvaldið í málum Þingvalla hjá nefndinni en ekki hjá ráðuneytinu. Ráðuneytinu finnst fara afar vel á því og hefur skilið lögin alla tíð þannig og ég hygg að þau sé með ótvíræðum hætti þannig.

Ég vil leyfa mér að færa þingmönnum þakkir fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað sem hefur sannað, sem ekki þurfti svo sem, þá miklu virðingu og hlýju sem þingið fyrir þjóðarinnar hönd ber til þessa staðar.