Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 18:50:28 (6087)

2004-04-05 18:50:28# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[18:50]

Kristján L. Möller (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svarið og þá sérstaklega það sem kom fram í lokin að viðkomandi þingnefnd, efh.- og viðskn., sem fær málið --- og að fjmrn. leggi þá fram gögn sín um einstaka flokka eins og ég hef tekið dæmi um --- skoði það ef þetta kemur mjög illa út. Hæstv. fjmrh. sagði að nefndin yrði að afla sér sinna eigin gagna, m.a. til þess að bera þetta saman. Nú vill svo til, og ég ætla að koma að því á eftir, að útreikningar mínir sýna að kostnaður við rekstur leigubíls hvað þetta varðar, olíugjaldið á móti þungaskatti, mun aukast um 100%. Sjálfstæðir útreikningar mínir eru þeir að hjá jeppaeiganda sem keyrir u.þ.b. 35 þús. km á ári og eyðir í kringum 15 lítrum á 100 km, hækkar kostnaðurinn um 53% á ári. Þetta eru hinir neikvæðu þættir frv.

Ég vil taka skýrt fram, virðulegi forseti, og kem betur að því í ræðu minni á eftir, að vafalaust er það svo, og ég tek undir það með hæstv. fjmrh., að margt í frv. er þannig að það er til bóta fyrir þjóðfélagið í heild en mikið svakalega mun það leggjast misjafnlega á aðila sem eru í þungaskattskerfinu í dag þegar þetta gjald verður tekið upp, og ég mun gera það að umtalsefni á eftir. Þó að ég sjái að hér hafi áunnist nokkuð mikið í áttina til þess að sú skattheimta sem var fyrirsjáanleg á flutningastarfsemi í landinu yrði eins svakaleg og hún var, vil ég aðeins segja í lokin og við skulum hafa það í huga, virðulegi forseti, að þungaskattsgreiðslur flutningsaðila hafa hækkað um allt að 45% frá árinu 1998 hjá þeim sem aka í kringum 120 þús. km á ári og er það mjög algengt með flutningabíla í dag.