Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 19:16:45 (6090)

2004-04-05 19:16:45# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, KÓ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[19:16]

Kjartan Ólafsson:

Frú forseti. Við erum að ræða frv. til laga um olíugjald og kílómetragjald sem hæstv. fjmrh. hefur kynnt. Mig langar að fara yfir örfá atriði sem varða málið. Hv. þm. Gunnar Birgisson fór ítarlega yfir það og ég ætla að reyna að endurtaka ekki margt af því sem hann sagði. Í upphafi máls míns vil ég benda á að mér finnst þetta gríðarlega mikið umhverfismál og við eigum og munum í framtíðinni líta á þetta í meira mæli sem umhverfismál en ekki eingöngu gjald á kílómetra eða olíugjald sem miðar að einhverju leyti við slit á vegunum vegna þess að gjaldið gerir það í rauninni ekki alveg. Olíugjaldið, sem mér líst vel á að sé verið að taka upp, mun leiða til þess að menn munu fjárfesta í tækjum og vélum sem olíugjaldið lendir á með tilliti til sparnaðar og minni innkaupa fyrir samfélagið á olíu sem er auðvitað mjög jákvætt.

Ef ég fer yfir helstu atriðin eru það heildarhagsmunir samfélagsins sem við erum að huga að. Við erum að reyna að ná sömu tekjum fyrir ríkissjóð sem er ráðstafað til vegaframkvæmda, bættra samgangna. Ég mundi vilja að farið verði yfir það í hv. efh.- og viðskn. að eftirlitskostnaðurinn verði sem minnstur og sá kostnaður sem atvinnulífið þarf að taka á sig varðandi útfærslu olíugjaldsins og kílómetragjaldsins verði sem minnstur. Mér finnst vega mjög þungt að aukakostnaður bæði atvinnulífsins og ríkisins verði sem minnstur. Þess vegna hefði ég haldið að það væri kostur að breikka gjaldstofninn, að fleiri tæki greiddu olíugjaldið, það væri til einföldunar gagnvart eftirliti og það væri til einföldunar fyrir atvinnulífið.

Nú nýverið voru samþykkt lög um erfðafjárskatt og þingið var sammála um að fara þar einföldustu leiðina, hafa lágt gjald sem næði til alls stofnsins. Ég held að við eigum að hafa þá hugsun í heiðri hvað varðar endanlega útfærslu á málinu.

Það þarf að vera innbyggður í kerfinu góður hvati hjá öllum sem nota dísilolíu í landi að nota sem minnst og það mundi verða ef gjaldstofninn væri breikkaður. Ég mundi telja að það væri kostur ef við gætum komist hjá því að nota mælana því það er verulegur kostnaður við rekstur og viðhald á mælunum eins og fram kom áðan í ræðu hv. þm. Gunnars Birgissonar. Ef við verðum hins vegar að sætta okkur við mæla er spurning hvort það er ekki í raun rökrétt að hækka mælagjaldið frá því sem það er nú í frv. Það er afskaplega lágt á bifreiðar í léttustu flokkunum og það er svo lágt að mér sýnist að léttustu bílarnir borgi miðað við meðalakstur einhver 7--12 þús. kr. á ári. Það er spurning hvort það er ekki of dýr aðferð við innheimtu á svo lágri upphæð að hafa mæli í þeim bílum. Í raun er ég að tala um hvort ekki sé rétt að hækka mælagjaldið ef við þurfum á annað borð að hafa mæla og lækka olíugjaldið á móti og koma því jafnframt inn á fleiri tæki þannig að við náum fram meiri mun. Ég mundi vilja sjá mun á bensínverði í útsölu og dísilolíu einhvers staðar á bilinu 15 kr. sem dísilolían væri lægri. Þá væri hvatinn verulegur fyrir alla sem nota eldsneyti ef munurinn er þetta mikill. Það finnst mér hljóti að þurfa að verða.

Það hefur komið fram í umræðunni að tiltekin tæki eru, miðað við frv. eins og það liggur fyrir, á mjög gráu svæði og má nefna vinnuvélar eins og krana og hvers konar tæki í staðbundinni notkun sem nota dísilolíu í vinnu sinni. Það mundum við jafna út ef gjaldið færi á breiðari grunn. Búast má við því að atvinnulífið muni haga innkaupum sínum á tækjum eftir því hvernig frv. mun líta út í endanlegri mynd. Við höfum séð það t.d. hjá bæjarfélögum að þau hafa verið að nota dráttarvélar í auknum mæli í vinnu sinni þar sem ekki er greiddur þungaskattur af þeim flutningum sem dráttarvélar framkvæma innan bæjarfélaganna og við mættum búast við því að fjárfest yrði meira í slíkum tækjum hjá bæjarfélögum, verktökum og öðrum sem mundu ekki borga olíugjaldið. Mér finnst það því vera enn frekari rök fyrir því að hafa olíugjaldið á breiðari grunni.

Mig langar að koma með fyrirspurn varðandi kostnað olíufélaganna, hvort hann hafi verið reiknaður nákvæmlega út og kostnaður fyrirtækjanna við tvöfalt olíudreifingarkerfi. Ég var að reyna að benda á áðan að við þurfum að reyna að kostnaðarreikna hver sá kostnaður er sem fyrirtæki verða fyrir því það er sá kostnaður sem leggst á þá vöru eða þjónustu sem þau selja.