Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 19:44:08 (6092)

2004-04-05 19:44:08# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágæta jafnvægislist í ræðu sinni varðandi kosti og galla málsins. Auðvitað er málið ekki gallalaust. Ég sagði um daginn í umræðum að það hefði farið í verra að hv. þm. Jóhann Ársælsson skyldi hafa ýtt á olíugjaldstakkann í hv. þm. Kristjáni L. Möller, vegna þess að hann er vanur að bregðast mjög illa við þegar þetta mál kemur upp en gerði það ekki að öllu leyti núna fannst mér.

Ég vil þakka honum fyrir að hafa fjallað um málið með þeim hætti að hann tíndi fram það sem hann taldi bæði vera kosti og galla málsins. Auðvitað er það þannig í máli sem þessu þar sem eru mörg ólík sjónarmið og við erum að hverfa úr einu kerfi yfir í annað að gjaldbyrðin dreifist öðruvísi í nýja kerfinu en því gamla og einhverjir munu fara verr út úr breytingunni en aðrir. Tilteknir hópar munu koma verr út úr þessu miðað við gamla kerfið, einkum þeir sem hafa notið sérstaks skjóls í núverandi kerfi eins og við höfum áður vitnað til. En eins og ég sagði áðan er ekki hægt að láta bara eitt sjónarmið, eina hagsmuni ráða ferðinni, t.d. ekki þá hagsmuni sem hv. þm. Kristján L. Möller ber helst fyrir brjósti, þ.e. flutningskostnaðinn út á land. Vissulega er það mjög mikilvægt atriði í málinu en það er ekki hægt að einblína á það atriði eitt þegar um er að ræða svona gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir þjóðarbúið allt, mál sem varðar almannaheill í víðum skilningi.