Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 19:48:59 (6094)

2004-04-05 19:48:59# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[19:48]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta málefni hefur borið á góma á hv. Alþingi áður. Ég man ekki nákvæmlega hvenær frv. var til umræðu, mig minnir að það hafi verið 1992 sem ég fylgdist með umræðum um þetta mál og taldi þá að skynsamlegt væri að gera þessa breytingu. Síðan hafa liðið ár og dagar og nú er komið árið 2004 og menn hafa hnoðast með þetta allan tímann. Mér er ekki grunlaust um að áhrifavaldarnir í þessu hafi verið æðimargir en þeir eiga það sammerkt að hafa áhrif en vera tiltölulega lítill hluti af þjóðinni, lítill hluti af atvinnulífinu líka, en mikilvægir.

Það er auðvitað alveg ljóst að olíufélögin hafa ráðið miklu um það á undanförnum árum að ekki hefur orðið af breytingum. Nú er eins og að þau hafi tapað áhrifum sínum eitthvað í bili. Kannski hefur það orðið til þess að menn eru komnir lengra í dag en hefur tekist fyrr. Það er mín skoðun að notkun dísilbifreiða sem eyða mun minna eldsneyti og menga minna en bensínbifreiðar geti skipt miklu máli í náinni framtíð til þess að draga úr mengun. Stefna stjórnvalda hvað varðar þungaskatt hefur ekki ýtt undir það á undanförnum árum að bifreiðaeigendur kaupi slíkar bifreiðir. Þvert á móti hafa stjórnvöld komið í veg fyrir kaup á þeim með óréttlátum þungaskatti á dísilbíla.

Bensínbílar eru skattlagðir á hvern lítra eins og allir þekkja en dísilbílarnir með þungaskatti sem beitt er þannig að hagkvæmara er að kaupa bensínbíla þó að þeir eyði 25--40% minna. Það liggur fyrir að menn hafa þá skoðun og hafa látið þessa þróun verða allt öðruvísi í löndunum í kringum okkur. Ég veit að árið 2001 voru einungs 13,6% af innfluttum bílum á Íslandi dísilbílar. Þá var gert ráð fyrir að á árinu 2004 yrðu um 40% af nýjum bílum dísilbílar í löndunum í kringum okkur þannig að þróunin hvað þetta varðar er á fullri ferð þar. Það er ekkert deiluefni að dísilbílar eyða miklu minna eldsneyti en bensínbílar.

Auðvitað eru gallar á því að breyta þessu. Það er engin spurning. Mér finnst t.d. helsti gallinn á þessu frv. vera sá að menn skuli hafa séð sig nauðbeygða til þess að halda í mælagjöldin áfram, þ.e. þungaskattskerfið að því leyti til. Ég tek undir það sem hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði að það er full ástæða fyrir nefndina að fara yfir það hvort hægt sé að minnka þann hóp sem menn telja sig tilneydda að hafa á einhverjum sérstökum reglum hvað þetta varðar. Best væri að hann væri helst ekki til staðar en menn hafa greinilega ekki fundið þá niðurstöðu enn þá sem hefði getað gengið upp með þeim hætti.

Það er svo að það vantar auðvitað stefnumörkun og umræðu um þann þátt málsins sem snýr að mengun. Þar hafa menn ekki sett sér markmið og þegar --- og ég segi þegar en ekki ef --- það verður gert verður auðvitað sett einhvers konar umhverfisgjald á brennda olíu. Það mun náttúrlega koma við fleiri en þá sem nýta hana á bílaflotann því mér skilst að mengunin sem fer upp í loftið skiptist nokkurn veginn í þrjá hluta, einn þriðjungurinn er frá stóriðjunni, annar frá skipaflotanum og þriðji frá bíla- og vélaflotanum í landi.

Það er auðvitað svolítið vandræðalegt að menn hafi ekki stefnumörkun hvað þetta varðar og að ekki sé hægt að benda á að hvaða leyti verið er að leggja á umhverfisgjald og að hvaða leyti eingöngu fjármuni vegna þess sem þarf til vegagerðar. Hér hafa menn talað eins og nánast eingöngu væri verið að leggja þessa fjármuni á vegna þess að það vantaði peninga til vegagerðar en samt blandað inn í það umræðunni um mengun og sparnað sem gæti orðið af því að breyta yfir í annan orkugjafa. Það er að mínu viti svolítill skaði að við skulum ekki vera komin lengra í þeirri umræðu en ég hvet til þess, vegna þess að það er ekki vansalaust að ekki skuli vera fluttir inn fleiri bílar og fleiri sparneytnari bílar en raun ber vitni og að menn komi þessu máli til enda.

Ég held því ekki fram að það kerfi sé gallalaust sem hér er, síður en svo, en ég held því hins vegar fram að auðveldara verði að sníða gallana af því fyrirkomulagi sem hér er þó verið að leggja til heldur en að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta en hvet bara nefndina og tek undir það sem hv. þm. Kristján Möller sagði áðan að það er full ástæða til þess að samgn. þingsins fái tækifæri til þess að fara yfir málið líka. Það er gott að sem flestir komi að málinu því það hefur auðvitað margar hliðar. En það er orðið ámótlega langt hummið á Alþingi gagnvart því að koma á breytingum hvað þá hluti varðar sem hér eru til umræðu í dag.