Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 19:56:09 (6095)

2004-04-05 19:56:09# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[19:56]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta undirtekt við málið en vek athygli á því sem hann sagði að það væri að öllum líkindum auðveldara að sníða hnökra af nýja kerfinu en af okkar gamla kerfi eins og fyrir því er komið í dag. Ég held að það sé mergurinn málsins. Burt séð frá því sem við höfum rætt í umræðunni um kosti og galla þessa kerfis þá getum við ekki lengur setið áfram í þeirri sjálfheldu sem við höfum verið í og ýmsir hafa gert að umtalsefni. Við verðum að brjótast út úr því.

Í frv. er gert ráð fyrir að lögin taki gildi um áramót. Það þýðir að allir sem að málinu koma hafa dágóðan undirbúningstíma til að setja sig í réttar stellingar. Ef það reynist síðan svo að það séu hnökrar á lögunum, því að auðvitað er ekkert alfullkomið í þessu efni, höfum við auðvitað svigrúm í haust til þess að reyna að kippa slíkum atriðum í lag.

Ég hef gengið í gegnum nokkrar stórar kerfisbreytingar í skattamálum, virðisaukaskatt, staðgreiðslu skatta, endurskoðun tollalaganna, og í þeim málum öllum þurfti að gera einhverjar endurbætur á löggjöfinni eftir að búið var að marka stefnuna með lögum um hvenær þau ættu að taka gildi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höfum öll í þessum sal augun opin fyrir því að kannski þurfi að gera einhverjar viðbótarbreytingar í haust eftir að málið skýrist betur. En það verður að marka þessa stefnu með skýrum hætti þannig að við afgreiðum þessi lög og þau taki síðan gildi um áramót þannig að menn hafi þó þann umþóttunartíma sem með því gefst. Við getum ekki hangið svona áfram, eins og hv. þm. sagði, árum og jafnvel áratugum saman með mál sem sjálfsagt er að reyna að koma frá.