Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 19:58:23 (6096)

2004-04-05 19:58:23# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[19:58]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem til að bæta hér aðeins við og ég get tekið undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði í ræðu sinni. Ég held að það frv. sem hér liggur fyrir sé mjög jákvætt spor. Ég hef talið að þungaskattur af dísilbifreiðum hafi verið mjög ranglátur skattur. Það var löngu tímabært að við tækjum þetta mál til afgreiðslu og ég tek undir með hæstv. fjmrh. að við vorum komin í ákveðna sjálfheldu í málinu sem við þurftum að brjótast út úr og ég held að við séum að gera það á jákvæðan hátt hér.

Hér er kominn hvati til að fjölga dísilbílum. Nýir dísilbílar eyða 20--30% minna eldsneyti en aðrir og þar með er minni mengun af þeim. Ég held að það sé rétt að við eigum að skattleggja dísilbíla eins og bensínbíla með því að innheimta vegaskatta í olíuverðinu frá söludælu. Innheimtukerfinu sem við höfum verið með, þ.e. þungaskattinum, hefur fylgt mikið skrifræði og fyrirhöfn og kostnaður fyrir bifreiðaeigendur. Ranglætið í því kerfi hefur aðallega bitnað á eigendum léttra dísilbifreiða sem hafa ekið það sem kallast má árlegur meðalakstur.

[20:00]

Mér finnst þetta vera ábending til okkar um að þarna séu menn á réttri leið að Bílgreinasambandið lýsir yfir ánægju með þetta og sömuleiðis Landvari sem er Félag ísl. vöruflutningabifreiða sem telur að þarna sé verið að ganga að þeirra kröfum. Ég held að hérna sé nútímaleg breyting á ferðinni. Vissulega hefur komið fram að þetta er kannski ekki til bóta fyrir alla, þ.e. sumir munu lenda í meiri útgjöldum en aðrir eins og hv. þm. Kristján L. Möller bendir á. Ég tel eðlilegt að efh.- og viðskn. kalli eftir öllum mögulegum upplýsingum til að skoða það frá öllum hliðum og reyna að minnka það sem mest að ákveðnir hópar fari mjög illa út úr þessu. Við vitum að þungaskattskerfið hefur komið mjög vel út fyrir suma þannig að þeir hafa hagnast á því.

Þessi leið hvetur líka til þess að menn noti bestu leiðir til eldsneytisnýtingar og ýtir á það að menn afleggi úreltan flota.

Svo langar mig aðeins að minnast á það sem hv. þm. Gunnar Birgisson nefndi áðan, að þó nokkuð mikið hefur verið um undanskot í þessu kerfi. Ég held að hér sé verið að leggja til mun öruggari innheimtuleið en þungaskattsinnheimtan var. Ég tel það vera til bóta því að allt undanskot veldur ranglátri skiptingu á skattbyrðinni og skekkir samkeppnisstöðu einstaklinga og fyrirtækja. Ég tel líka að olíugjaldið endurspegli notkunina á vegakerfinu. Við vitum að stórir bílar slíta því miklu meira en litlir og við verðum að láta það endurspeglast í gjaldtökunni.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en vil taka undir ábendingar og óskir félaga minna í Samfylkingunni, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar og Kristjáns Möllers, um að samgn. Alþingis fái málið til umsagnar. Ég tel það eðlilegt. Málið varðar samgn. þannig að ég vil beina því til hæstv. ráðherra eða forseta þingsins að hann leggi það til að samgn. Alþingis fái málið til umsagnar. Ég tel að ákveðin umhverfissjónarmið komi fram í frv. Því fagna ég. Ég geri ráð fyrir að dregið verði úr eldsneytiseyðslu og útlosun gróðurhúsalofttegunda. Það er auðvitað af hinu góða.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með frekara tali um þessi mál. Þetta er náttúrlega bara 1. umr. málsins. Ég tel okkur vera á jákvæðri og réttri leið með þetta frv.