Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

Mánudaginn 05. apríl 2004, kl. 20:48:15 (6100)

2004-04-05 20:48:15# 130. lþ. 94.15 fundur 849. mál: #A olíugjald og kílómetragjald o.fl.# (heildarlög) frv. 87/2004, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 130. lþ.

[20:48]

Kristján L. Möller (andsvar):

Frú forseti. Ég fylgdist af athygli með ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals um frv. og því sem hann talaði um, einfaldara kerfi o.s.frv. Ég hygg að þótt við séum ekki oft sammála þá sé ég sammála honum um að hægt sé að gera skattkerfið einfaldara og finna leiðir að því marki. Það er mjög jákvætt.

Hv. þm. ræðir um það að við þurfum að samþykkja þetta frv. til að auka möguleika Íslendinga á að kaupa sér minni dísilbíla sem spara orku o.s.frv. Hv. þm. er mikið fyrir einfaldleikann og það er ljóst að olíugjaldskerfið sem hér er um að ræða mun auka mjög kostnað og sennilega auka kostnað atvinnulífsins meira heldur en kostnað einstaklinga. Með öðrum orðum, það er verið að færa skatt af einstaklingum yfir á atvinnulífið og atvinnufyrirtæki, það má alveg leiða líkur að því.

Út frá einfaldleikanum ætla ég að koma mér að spurningunni og spyrja hvort hv. þm., sem hefur grúskað mikið í skattkerfinu, hvort hann hafi ekki séð að breyta mætti þungaskattskerfinu í þá veru að búa til gjaldflokka fyrir neðan 4 þús. kíló og minnka þyngdina og kílómetragjaldið á minni bílunum. Hefði það ekki bara verið einfaldara fyrir okkur, úr því að við vorum ekki búin að taka upp olíugjaldið fyrir einum 10--15 árum þegar aðrar þjóðir gerðu það?